139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé að við hæstv. ráðherra verðum svo sem ekki sammála um hvort það hafi verið skynsamlegt að hækka skattana eða ekki, en látum það liggja milli hluta. Ég held hins vegar að menn skauti dálítið létt fram hjá þessu vegna þess að það bætir ekki neitt. Forseti ASÍ hefur t.d. bent á að skattahækkanirnar séu mun meiri núna en þeir 11 milljarðar sem talað er um vegna þess að ef maður tekur tillit til bæði þeirra bóta sem verið er að skerða, barnabóta, vaxtabóta og lífeyrisbóta sem eru ekki réttar tekjulega séð, er endalaust hægt að fara í þá umræðu. Ég er hins vegar sammála hæstv. ráðherra að við ræðum það ekki í einhverjum stuttum andsvörum.

Hæstv. ráðherra talar um 6. gr., heimild um kaup og sölu á bústöðunum inni í þessu, en það er nú ekki aldeilis sami skilningurinn alls staðar þar. Það er kannski eitt af þeim málum sem við þurfum að skerpa á, þ.e. hver aðkoma þingsins er í því máli. Fyrir tveimur dögum síðan kom hingað maður úr fjármálaráðuneytinu sem hafði annan skilning á þessu, hann sagði að 6. gr. heimildin t.d. fyrir árið 2010 væri upp á 350 milljónir. Fyrir árið 2011 er hún 330 milljónir, samt eru þar heimildarákvæði sem skipta jafnvel tugum milljarða. Hins vegar benti þessi maður á að ef menn mundu þurfa að fara umfram þessar 330 þyrfti að fá sérstakt leyfi frá þinginu. Túlkunin er því önnur en framkvæmdin. Framkvæmdin hefur verið þannig í gegnum tíðina að menn líta á þetta sem innstreymissjóð. Í heimildargreininni fyrir árið 2011 er t.d. leyfi til þess að kaupa hverasvæðið við Geysi í Haukadal, þannig að það er endalaust hægt að tala í þá veru.

Skilningur á lagagreininni, 6. gr. heimildinni, er allt annar en framkvæmdin hefur verið í gegnum tíðina.

Ég vil benda á í þessari umræðu hvað það er mikilvægt að ná utan um þetta vandamál, t.d. fór eitt stykki tónlistarhús fyrir 40 milljarða inn í gegnum 6. gr. heimildina. Þess vegna eigum við að læra af því sem gerst hefur í fortíðinni og breyta þessu og láta það þá liggja alveg skýrt fyrir hver aðkoma Alþingis er að þessum fjárútlátum.