139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá, 18 barna faðir í Álfheimum, og hef þó aldrei séð svona stóran gaur í svo lítilli grýtu og vissi ekki að ég ætti eftir að upplifa það hér á þingævi minni að vera kallaður popúlisti af hálfu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar.

Um laun alþingismanna er það að segja að ég er prýðilega sáttur við þau laun sem við höfum nú þegar, tel að þau séu nokkuð hæfileg. Ég held að alþingismenn eigi að vera það vel launaðir að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjárhag sínum. Auðvitað fer það eftir því hvað menn lifa hátt, en ég held þeir eigi líka ekki að vera svo vel launaðir að þeir færist mjög frá meðallaunum eða miðlínulaunum umbjóðenda sinna og geti skilið það fólk sem hér er fyrir utan og er t.d. í vandræðum núna.

Þetta frumvarp fjallar ekki um laun þingmanna, það fjallar um að þeir hafi jöfn laun, það er jafnræði þingmanna sem hér er verið að tala um og ekki laun þeirra sjálfra.