139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að starf alþingismannsins sé einstakt. Það er öðruvísi en öll önnur störf. Alþingismaðurinn er að hluta til einyrki en samt starfar hann í hóp. Umbjóðendurnir eru kjósendur. Við bjóðum okkur fram fyrir stjórnmálaflokka. Við höfum stefnumál að verja en við höfum misjafnar áherslur. Það getum við ákveðið hvert fyrir sig.

Allir eru jafnir þegar þeir koma til þings hvort sem þingmenn hafa verið hér í 20 ár eða eru nýkjörnir, þeir eru jafnir þegar þeir koma til þings. Ég veit það svo sem alveg að þeir sem hafa verið hér lengi finnst hinir bölvaðir … afsakið, virðulegi forseti, miklir græningjar. Og reynsla sem ekki er fengin í þessu húsi þykir mjög lítilsverð. (BJJ: Þetta er mikil alhæfing.) Þetta er mikil alhæfing en þetta er samt sem áður satt. Ég veit að það á ekki við um alla þingmenn. Ég veit að það er misjafnt, en það er nú svona sem það blasir við sextugri kellingu sem sest á þing. Sú reynsla sem ekki er aflað í þessum sölum eða í sveitarstjórnum þykir mjög fábrotin almennt og yfirleitt. Ég veit að hv. þm. Birki Jóni er öðruvísi farið, enda er hann til fyrirmyndar fólki í þessu húsi og á að vera öllum til fyrirmyndar. [Hlátur í þingsal.]

Það er einmitt þess vegna, vegna jafnræðis, vegna þeirra skyldna sem við berum öll, hvort heldur við sitjum sem formenn nefnda eða formenn þingflokka sem mín skoðun er sú að kaupið eigi að vera jafnt.

Þeir sem eru formenn þingflokka hafa mun meiri áhrif en þeir óbreyttu, eins og svo skemmtilega er sagt um þingmenn sem ekki eru ráðherrar eða formenn þingflokka, þeir eru óbreyttir. Hinir hafa mun meiri áhrif. Þeir hafa mun meiri möguleika á að koma skoðunum sínum á framfæri og til að, afsakið forseti, „víla og díla“.

Síðan er það mjög ábyrgðarmikið starf að vera formaður nefnda. En það er einmitt það sem við gerum á Alþingi, við sækjumst eftir ábyrgð, annars værum við ekki hér nema vegna þess að við sækjumst eftir ábyrgð. En að borga eigi sérstaklega meira fyrir þá sem hafa meiri ábyrgð og geta haldið utan um málin og stýrt þeim samræmist ekki því sem mér finnst eiga að vera hér á þingi.

Hv. þm. Mörður Árnason talaði um forseta og þá sem sitja á forsetastóli, það er sérstakt virðingarembætti. Það er mikið amstur að koma fyrir þingstörfum, enda kannski ekki mjög þægilegum hópi fólks að stýra, þannig að við höfum látið það liggja milli hluta, í bili alla vega, að gera tillögu um að það fólk sé á sama kaupi og við hin.

Ráðherrar hafa auðvitað hærra kaup en við viljum þá líka út af þingi. [Hlátur í þingsal.] Þeir eiga ekki að sitja hér nema þegar þeir færa fram mál sín og þeir eiga að gegna störfum sínum í Stjórnarráðinu okkur og þjóðinni til heilla. Þeir eiga að gera það sem við segjum þeim að gera vegna þess að það erum við sem ráðum.

Ég vil frábiðja mér að þetta sé kallað lýðskrum. (GBS: Þetta er ekkert annað.) Ég endurtek: Ég vil frábiðja mér að þetta sé kallað lýðskrum. Ég hef í þessum efnum aðra skoðun en hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Það er ekki lýðskrum. Það er bara önnur skoðun. (GBS: Popúlismi.) Það er önnur skoðun.

Þá ætla ég að koma að stjórnarandstöðunni.

Stjórnarandstaðan gegnir gífurlega mikilvægu hlutverki á Alþingi. Eins og málum er háttað í dag á enginn úr stjórnarandstöðunni kost á því að fá þessi 15% í viðbót eða hvað það er, nema þeir sem sitja á forsetastóli. (GBS: Af hverju þá …? …) (Gripið fram í: Þingflokksformenn.) — Og þingflokksformenn, já, fyrirgefið, ég biðst afsökunar á því, forseti, ég átti náttúrulega við þá sem gegna formennsku í nefndum. Þeir eiga það ekki núna, en kannski einhvern tímann seinna, það má vel vera. Mér skilst að lagt hafi verið fram frumvarp til kynningar á því að því yrði breytt. Það má huga að því.

Ég er stolt af því að vera meðflutningsmaður á þessu frumvarpi. Ég hugsaði oft um þetta í fyrravetur og er ánægð með að hér kom maður sem dreif í að leggja frumvarpið fram.