139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:22]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Í máli hv. þingmanns og þingflokksformanns, Gunnars Braga Sveinssonar, var tekið undir það sjónarmið sem annar flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu, hv. þm. Mörður Árnason, sagði, að þingmannsstarf væri fullt starf og meira en það, að það tæki 24 tíma á sólarhring sjö daga í viku. Ég skil ekki hvaðan þingflokksformenn eða nefndarformenn fá meiri tíma en 24 tíma á sólarhring sjö daga í viku, þá tíma eða 15% meiri tíma eiga þeir að fá borgað fyrir. Ég næ því ekki alveg ef talað er um þetta í beinhörðum peningum.

Ég lít á þessa tillögu sem hér er flutt sem mjög merkilegt og jákvætt skref inn í nútímann til móts við þann jöfnuð sem samfélag okkar þarfnast og krefst. Mér finnst launastrúktúrinn á Alþingi vera gamaldags og mér finnst hann mótast af einhverjum furðulegum ójafnaðarsjónarmiðum sem hann nær meira að segja ekki að endurspegla.

Hv. þingmaður Margrét Tryggvadóttir benti svo réttilega á það áðan að sá mismunur á umfangi starfs sem formaður þingnefndar gegnir endurspeglast ekki í þessum 15%. Það eru ákveðnar þingnefndir sem funda sjaldan og krefjast tiltölulega lítillar vinnu. Sé miðað við aðrar nefndir, eins og t.d. fjárlaganefnd sem fundar mjög oft og lengi, hafa formenn nefndanna sama álag. Sama gildir um þá sem veljast til þingflokksformennsku, sumir eru formenn í þriggja manna þingflokki, sem maður skyldi ætla að væri tiltölulega einfalt að hemja, og aðrir eru formenn (MÁ: Betra en fjögurra.) í þingflokkum … já, já, þriggja manna flokkur er auðveldari en fjögurra manna, [Hlátur í þingsal.] það er engum blöðum um það að fletta. Ef ég hækka töluna frá fjórum og er kominn upp í 16 eða 20 þingmenn er starfið náttúrlega orðið ærið. Má af því ráða að þessi 15% slumpur á vinnuálag er algjörlega óraunhæfur, endurspeglar engan raunveruleika.

Ef við förum í eftirspurn eftir störfum þarf venjulega að borga meira fyrir störf sem eru óvinsæl og þykja óþrifaleg og erfið o.s.frv. Ef enginn vill vinna þau þarf augljóslega að borga meira fyrir þau. Það er ekki svo um þessi störf. Ég hygg að án nokkurs álags væri mjög auðvelt að manna þessi störf á þinginu vegna þess að fólk hefur einfaldlega áhuga á því að taka þau að sér.

Ég ætla ekki að fara út í hvernig þessi störf eru mönnuð, þ.e. hvort þau eru eingöngu mönnuð eftir því að akkúrat þessi manneskja henti sem formaður í þessari nefnd sem er vonandi aðalviðmiðið. Annað viðmið er að í pólitík og þingmennsku tíðkast ákveðin goggunarröð. Formenn stjórnmálaflokka hafa meiri tilhneigingu til að halda fram því fólki til embætta sem fylgir þeim af mikilli tryggð og trúmennsku. Þannig er lífið einfaldlega. Ég hef ekkert út á það að setja. Lífið er bara svona, en þá borgarðu aukalega fyrir það.

Af hverju skyldum við á þessu litla þingi hafa slíkt kerfi að tíu eða tólf úr hópnum fái 50% álag fyrir að vera ráðherrar með einkabílstjóra og litla viðveruskyldu í þinginu og gífurleg áhrif sem við öll sækjumst eftir? Ég efast um að nokkur þingmaður hér mundi slá hendinni á móti ráðherraembætti. Þá eru komnir tíu, eftir eru 53. Síðan koma formenn nefnda, þeir eru níu. Ég held að allir hér mundu glaðir taka að sér formennsku í nefndum án þess að aukagjald kæmi fyrir. Þá eru komnir 29 af þessum 63. Það eru formenn þingflokka. Þeir eru fimm. Sama gildir um það. Ég hygg að flestir, ábyggilega ekki allir, en flestir mundu gjarnan vilja njóta þess trausts að vera formenn í sínum þingflokki.

Mér er það algerlega óskiljanlegt af hverju menn eru á móti því að auka jöfnuð á þinginu, nema náttúrlega þeir sem hafa þá lífsskoðun að jöfnuður sé tóm vitleysa og til bölvunar og það verði að ríkja miskunnarlaus samkeppni milli fólks og út úr þeirri samkeppni spretti einhver skapandi eldur sem sé samfélaginu nauðsynlegur. Það er skoðun sem sumir hafa. Ég virði þá skoðun fullkomlega, en ég hef hana ekki. Ég held að jöfnuður sé mikilvægasta framfaraskref sem við í íslensku þjóðfélagi getum stigið.

Ég ætla að benda á að nýlega kom út bók skrifuð af tveimur faraldursfræðingum. Þessi bók hefur komið miklu róti á hugarheim manna, einkum og sér í lagi stjórnmálamanna. Bókin heitir á ensku The spirit Level og hefur ekki verið þýdd enn þá. Í stuttu máli sagt gerðu þessir faraldursfræðingar úttekt á 23 þjóðfélögum að 50 ríkustu þjóðfélögum heims. Niðurstaðan var sú að þegar þjóðfélag er komið á það stig að geta talist ríkt þjóðfélag fer velferð þegnanna, sem sagt heilsufar, menntun og aðrir slíkir grundvallarþættir, ekki eftir því að auknum fjármunum sé varið til einstakra málaflokka heldur fer hún eftir því að ákveðinn tekjujöfnuður ríki í þjóðfélaginu. Því meiri tekjujöfnuður, því betra. Merkileg tíðindi. Mjög merkileg tíðindi og sanna loksins það sem jafnaðarmenn, ef einhverjir slíkir eru hér, hafa haldið fram áratugum saman án þess að geta sannað það, að jöfnuður sé góður fyrir heildina.

Þetta frumvarp lýtur að jöfnuði. Ég tel að okkur, það eru fleiri en mig sem dreymir um aukinn jöfnuð í íslensku samfélagi, finnist vel við hæfi að sá jöfnuður komi að ofan, þ.e. ef Alþingi er enn þá toppurinn á íslensku stjórnkerfi þá færi vel á því að jöfnuðurinn byrjaði þar og héldi áfram niður eftir öllum stigum þjóðfélagsins.

Ég fagna þessu frumvarpi. Mér finnst það ekki ganga nógu langt, en ég styð það í þeirri mynd sem það er núna sem fyrsta skref á braut okkar til aukins jöfnuðar í íslensku þjóðfélagi.