139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur verið alveg prýðileg. Auðvitað er það þannig að það er dagamunur á því í hvernig skapi við erum, hvernig við tölum hvert við annað og hvaða virðingu við sýnum málefnum hvert annars og það verður bara að hafa það, það er þannig.

Það getur vel verið að í þessu frumvarpi sé einhver popúlismi. Ef svo er held ég að það sé góðkynja popúlismi sem ekki skaði neinn nema skap hv. þingflokksformanns Framsóknar. Ég held að vert sé að muna að það voru jafnaðarmenn, það voru samferðarmenn og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar sem í raun og veru báru það fram sem baráttumál að það væri þingfararkaup yfir höfuð á þjóðþingum Evrópulanda. Það var þannig í upphafi að það var upp og ofan hvort borgað var fyrir starfið því að þetta var meira hobbí yfirstéttarmanna að koma á þingið meðfram þeim störfum sem þeir sinntu við rekstur óðala og umsvifamikilla fyrirtækja. Þingfararkaup komst á vegna þess að fulltrúar verkalýðsstéttar, lágstéttar, kröfðust þess að það yrði svo til þess að skapa þeim jafna stöðu, til þess að allir gætu komist á þingið, þannig að þegar þingfararkaup er búið til er það jafnaðarmál í sjálfu sér.

Í öðru lagi fjallar frumvarpið um það sem það fjallar. Það var skýrt í lok ræðu minnar af hverju það fjallar ekki um annað, af hverju það fjallar ekki um varaforseta og ekki um formenn stjórnmálaflokka eða um formenn stjórnmálaflokka. Ég er nákvæmlega sammála hv. þm. Margréti Tryggvadóttur um að það fari betur á því að stjórnmálaflokkarnir borgi sjálfir forustumönnum sínum ef þeir telja þörf á því, einkum vegna þess að þau störf koma að forminu til Alþingi ekkert við. Þeir eru ekki kosnir á Alþingi, þiggja ekki umboð sitt frá alþingismönnum heldur þiggja þeir umboð sitt frá félögum í flokkum þeirra. Ég er sammála því en það er ekki það sem við ætlum að hreyfa hér við.

Og um varaforsetana, sjálfsagt er að ræða þær ábendingar sem hér hafa komið fram í nefndinni. Það var skýrt líka hvers vegna við tókum ekki varaforsetana með, en það er ekki þannig, eins og Birkir Jón Jónsson, háttvirtur og ágætur og skapgóður þingmaður, hefur misskilið að þeir eigi að fá laun fyrir virðingu sína og það traust sem þeim er sýnt með því að taka að sér störf í forsetastóli, heldur er það einmitt öfugt. Það er ekki það sem þeir fá borgað fyrir, það sem þeir fá borgað fyrir er álag fyrir sérstaka þjónustu umfram þau áhrif og völd sem þessu starfi fylgja. Þetta er þjónusta við okkur í þinginu en það felast engin sérstök áhrif eða völd í þessari stöðu. Annað mál er hvort það á að vera, hvort það á að vera mikið, en það gegnir öðru máli um þessi störf að okkar viti en hin. Það skiptir ekki meginmáli.

Um ráðherrana er það auðvitað að segja og þingmenn líka að það er ekki þingið sem ákveður laun þeirra, þau eru ákveðin í kjaradómi þannig að þessar greinar í lögunum um þingfararkaup eru í raun og veru anómalía, þær koma þvert á þá meginstefnu að kjaradómur ákveður launin sem menn hafa komist hér að niðurstöðu um eftir sára og bitra reynslu af því að þingmenn séu að gera þetta sjálfir. Um forseta þingsins er það að segja, ég ætla ekki að fara að ræða það efnislega, að hann er jafnsettur ráðherra í launum þannig að það miðast líka við kjaradóm.

Jafnræði, það er bara tvennt í þessu. Annaðhvort eru þingmenn jafnir þegar þeir koma á þingið eða, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði, við ættum að draga dám af því sem gerist á almennum vinnumarkaði, hjá ríkinu vissulega en líka á almennum vinnumarkaði. En bíðum við, er þá eina breytan, er þá eini parametrinn eða kennivíddin ábyrgð, það að vera í þessari formennsku? Nei, á almennum vinnumarkaði eru margar kennivíddir. Ein kennivíddin er ábyrgð, önnur tengd henni eru mannaforráð, sú þriðja er vinnutími, sú fjórða er dugnaður, skilvirkni. Hv. þm. Þráinn Bertelsson kom að mér áðan og spurði hvort ég ætti ekki að fá laun fyrir að flytja þau þingmál sem hér voru kynnt áðan, ég átti tvö af þremur, eigum við kannski að fá bónus fyrir þingmál? Það væri kannski ráð til að auka framleiðslu þingmála. Ég veit ekki hvort það mundi verða þjóðinni mjög til heilla eða þinginu en það væri þó alla vega ein kennivídd sem menn gætu tekið mark á. Sá sem flytur þingmál er a.m.k. að gera eitthvað, hann sýnir það. Eða eigum við að hafa laun vegna reynslu, að þeir sem eru reyndir á þinginu eða í sambærilegum störfum sem koma því að gagni? Sumir hafa verið hér í 20 ár. Sá sem þingreyndastur er okkar þingmanna, hæstv. forsætisráðherra, hefur verið hér síðan árið 1978. Ætti hún að fá sérstök laun í samræmi við það? Nei, okkur hefur aldrei komið það til hugar að láta það skipta máli. Eða eigum við að láta það fara eftir menntun og þá hvaða menntun? Er það almenn menntun? Er það sú menntun sem kemur hér að sérstöku gagni? Ættu þá lögfræðingar að fá hærra kaup en aðrir? Ættu menn, af því að hér situr doktor í salnum í íslenskum fræðum og er mjög hátt virtur sem slíkur, ætti hann að fá meiri laun fyrir sitt doktorspróf en arkitektinn, hv. þingmaður sem situr mér til hægri handar? Eða einhver sem hefur minni menntun en er fullkomlega bær og jafnvel þess vegna æskilegur á þinginu? Nei, okkur finnst það ekki. Ef við ætlum að taka eina kennivídd í þetta dæmi þá eigum við líka að spekúlera í hinum, þannig að ég hafna því að launastrúktúr eigi að vera hér með einhverjum þeim hætti sem tíðkast á vinnumarkaði. Ég tel það andstætt meginreglu lýðræðisskipunar og þeim almennu prinsippum sem við eigum að virða í þinginu.

Ég held satt að segja að þetta álagsmál sé svona 2007-mál. Þetta var eins og ég rakti í ræðu minni, þetta kom inn árið 1995 þegar samfélagið er einmitt að byrja að sporðreisast í vitleysisgangi og ég lýsti því hvernig það gerist. Þetta gerist ekki í skjóli nætur, þetta gerist um mitt sumar, þetta gerist þannig að þetta fer lágt, þingmenn ræða þetta ekki opið, það er ekki rætt í ræðustól hvernig standi á þessu. Það er gert í nefnd og ég gleymdi að bæta því við að allir þingflokkar voru sammála um þetta á þeim tíma nema einn. Það er svolítið merkilegt hvaða þingflokkur það var því að það var sá þingflokkur að tveir úr honum eru eftir á þinginu frá 1995 og það eru ekki mjög margir þingmenn sem hafa svo háan starfsaldur. Þeir þingmenn eru annars vegar hæstv. forsætisráðherra, sem ég minntist á áðan, Jóhanna Sigurðardóttir, og hins vegar hæstv. forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Sá þingflokkur tók ekki þátt í afgreiðslu þessa máls af prinsippástæðum sem reyndar vörðuðu fleira en nákvæmlega þetta atriði.

Ég þakka aftur fyrir þessa umræðu. Ég vonast til að hún haldi áfram í allsherjarnefnd. Auðvitað koma einhverjar umsagnir um þetta og þar verður hægt að ræða málið. Ég á reyndar von á því líka, ég skil ekki í öðru en forseti Alþingis og forsætisnefnd hljóti að íhuga þetta frumvarp í tengslum við það erfiða verkefni sem þar er fram undan sem er það, eins og ég orðaði það áðan, að skera fituna af Alþingi og það þarf jafnvel að skera meira. Það getur þurft að segja hér upp fólki þó að það verði ekki alþingismenn og breyta þingstörfunum að einhverju leyti því að Alþingi verður að taka þátt í því vonda verki sem við verðum að vinna, að draga að okkur ólina til þess að bæði við sjálf og börnin okkar getum horft fram á betra líf eftir þau ósköp sem yfir okkur dundu og þessar álagsgreiðslur voru einn örlítill anginn af.