139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll.

28. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Guðmundur Steingrímsson og Ásmundur Einar Daðason. Tillögugreinin er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með flugvélum sem núna hafa heimild til þess að fljúga um völlinn.

Þessi þingsályktunartillaga var flutt á 138. löggjafarþingi en fékkst ekki rædd og er því flutt að nýju. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um hana. Við ræddum hana dálítið þegar hún var fyrst lögð fram en það eru út af fyrir sig nokkur atriði sem ég vil engu að síður nefna.

Ísafjarðarflugvöllur gegnir ómetanlegu hlutverki og er eins og allir vita ein helsta samgönguæð Vestfirðinga. Unnið hefur verið að margvíslegum endurbótum á flugvellinum og hafa þær verið til mikilla bóta fyrir flugsamgöngur til Vestfjarða. Það heftir hins vegar vaxtarmöguleika vallarins að ekki er almenn heimild til þess að stunda um hann millilandaflug. Slík starfsemi var þó stunduð á árum áður og skipti miklu máli. Landfræðilegar aðstæður til almenns millilandaflugs eru að sönnu erfiðar. Á hinn bóginn er völlurinn einn hinn fjölfarnasti í almennu innanlandsflugi og með undanþágum er stundað þaðan takmarkað millilandaflug. Þann þátt starfseminnar þarf að efla með sérstakri áherslu á þá möguleika sem eru til aukins samstarfs Vestfjarða og Grænlands.

Ég vil vekja athygli á því að í skýrslunni Vaxtarsamningur Vestfjarða, sem unnin var af verkefnisstjórn um byggðaáætlun Vestfjarða og iðnaðarráðuneytið gaf út árið 2005, var m.a. vikið að þessu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Flugfélag Íslands hefur um árabil notað Ísafjörð sem höfn í tengslum við flutning á fólki og vörum til austurstranda Grænlands en þangað er innan við einnar klukkustundar flug. Þessu svæði mætti þjóna mun meira frá Ísafirði en gert er og jafnvel bjóða ferðafólki á Vestfjörðum í stuttar útsýnisferðir til Grænlands.“

Þess má einnig geta að vegalengdin milli Vestfjarða og Grænlands er einungis 275 kílómetrar þar sem styst er. Landfræðilegar aðstæður eru því til frekara samstarfs.

Hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tók málið upp á sínum tíma þegar hún heimsótti Grænland 20.–21. júní 2008. Með henni í för var m.a. þáverandi bæjarstjóri Ísafjarðar, Halldór Halldórsson, sem skrifaði allítarlega greinargerð um málið. Komið er inn á hana í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem ég vísa til.

Forsenda fyrir því að hægt sé að stunda flugsamgöngur frá Ísafirði, milli Grænlands og Íslands, eru ýmsar. Það eru ýmsir vankantar á þessu flugi núna. Það er ekki heimild til millilandaflugs á vellinum. Hins vegar er möguleiki fyrir flugrekendur að fá undanþágu eins og ég rakti áðan. Slíkt hefur þó reynst tafsamt og þvælið þegar það hentar flugrekanda að nýta Ísafjarðarflugvöll sem lendingarstað vegna millilandaflugs. Þess eru dæmi að flugvélar sem hafa millilent á Ísafirði á leið til Grænlands hafi þurft að bíða á Ísafirði í sólarhring meðan farið var í gegnum undanþágubeiðnirnar. Það sjá allir að fyrirkomulagið letur flugrekendur til að nota Ísafjarðarflugvöll þó að hann henti vel landfræðilega. Það er þetta sem við flutningsmenn vekjum athygli á. Við teljum að það skipti miklu máli að ráðast í nauðsynlegar úrbætur þannig að völlurinn geti gegnt hlutverki millilandaflugvallar. Við gerum okkur grein fyrir því að flugvöllurinn er háður ýmsum takmörkunum. Hann er staðsettur milli hárra fjalla í þröngum firði. Það breytir því ekki að það er heimilt, með takmörkunum, að fljúga þaðan millilandaflug. Eins og við vitum er Ísafjarðarflugvöllur einnig gríðarlega þýðingarmikill þáttur í samgöngukerfi Vestfjarða. Árið 2008 fóru 52 þúsund manns um flugvöllinn. Það var 15% fjölgun frá árinu 2006.

Á undanförnum árum hefur verið lagt í verulegar fjárfestingar á vellinum til að auka öryggi og bæta aðstöðu farþega. Þær munu nýtast alþjóðafluginu jafnt og innanlandsfluginu þó fyrirsjáanlegt sé að ráðast þurfi í frekari fjárfestingar til að stuðla að þessu flugi. Ég hef upplýsingar um að þær fjárfestingar séu óverulegar og ættu að öðru leyti ekki að vera til trafala.

Það hefur ýmislegt verið gert á Vestfjörðum til að stuðla að auknu samstarfi milli Grænlands og Íslands með það að markmiði að samstarfið fari fram á Vestfjörðum. 20. mars sl. var Grænlandssetur stofnað í Bolungarvík. Í stjórn þess eiga sæti einstaklingar víðar af Vestfjörðum. Þar var m.a. vakin athygli á mögulegri aðkomu Vestnorræna ráðsins að styrkja tengslin á grundvelli hins nýja Grænlandsseturs.

Að frumkvæði hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur voru 17. mars árið 2007 samþykktar á Alþingi þingsályktunartillögur sem undirstrika áhuga á að sinna betur samskiptum við Grænlendinga. Ég vil sérstaklega nefna mikinn eldhuga sem hefur haft mikinn áhuga á þessu máli og vakið hvað eftir annað athygli á þessu í ræðu og riti á Ísafirði. Það er Úlfar Ágústsson kaupmaður sem hefur verið ötull í því að vekja máls á tækifærunum sem þarna eru fyrir Vestfirði. Þau mundu ekki síður nýtast Grænlendingum og raunar íslensku þjóðinni í heild.

Kjarna málsins drögum við saman í síðasta kafla greinargerðarinnar og segjum, með leyfi virðulegs forseta:

„Landfræðilegar aðstæður setja millilandaflugi um Ísafjarðarflugvöll skorður. En í ljósi þess að um völlinn fara meira en 50 þúsund farþegar árlega í innanlandsflugi og heimild er til takmarkaðs millilandaflugs, er eðlilegt að unnið verði að því að opna fyrir frekara millilandaflug svo sem landfræðilegar aðstæður leyfa. Slíkt gæti eflt íslenska ferðaþjónustu, styrkt einkanlega samstarf Íslands og Grænlands á ýmsan hátt, rennt fleiri stoðum undir vaxandi ferðaþjónustu á Vestfjörðum og nýtt þá fjárfestingu sem þegar hefur verið gerð í innviðum á margvíslegum sviðum enn þá betur.”

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til samgöngunefndar Alþingis og síðari umræðu.