139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að ræða stuttlega tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamninga menntamálaráðuneytisins fyrr á árum við tvo einkaskóla í landinu, Menntaskólann Hraðbraut og Keili á Suðurnesjum.

Staðreyndirnar varðandi Menntaskólann Hraðbraut hafa verið tíundaðar í fjölmiðlum og þær eru ekki fallegar. Þar tíðkuðust ofgreiðslur á hverju einasta ári í 5 ár, samtals um 160 millj. kr., afar hæpnar arðgreiðslur til eigenda að fjárhæð 82 millj. kr. sem teknar voru út úr rekstri sem í reynd var neikvæður og óeðlilegar lánveitingar að fjárhæð 50 millj. kr. til eigenda skólans til fjárfestinga í öðrum löndum sem aldrei urðu að veruleika.

Það er ljóst af skýrslunni að ótvírætt brot var framið á ákvæðum þjónustusamnings sem kvað á um árlegt uppgjör þar sem bera átti saman áætlanir og rauntölur um nemendafjölda og leiðrétta í kjölfarið nemendaframlög ríkisins. Það sem sérstaklega stingur í augun er að báðir aðilar, stjórnendur skólans og menntamálayfirvöld, höfðu vitneskju um þessar ofgreiðslur en ekkert var að gert. Ráðuneytið tók reyndar ákvörðun um það árið 2007 að krefja skólann ekki um endurgreiðslur vegna ofgreiðslna á árunum 2004 og 2005. Þetta er átalið í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem telur ráðuneytið ekki hafa haft neina heimild til að gefa eftir skuld skólans við ríkissjóð.

Varðandi Keili á Suðurnesjum er sannarlega ekki um sambærilega misnotkun á almannafé að ræða eins og í fyrra tilvikinu, en niðurstaða Ríkisendurskoðunar er engu að síður sú að um hafi verið að ræða skýlaust brot á þjónustusamningi við ríkið þar sem skólinn hafi notað hluta ríkisframlags til annarra þarfa en kveðið var á um í þjónustusamningi. Í báðum tilvikum hafa síðan mál þróast með þeim hætti að skólarnir eru í reynd að víkja frá þeim markmiðum sem lagt var upp með við gerð þjónustusamninga við ríkið.

Hraðbraut átti fyrst og fremst að þjóna bráðgerum nemendum á fyrstu árum framhaldsskólastigsins en reynist í æ ríkara mæli þjóna eldri nemendum. Keilir átti sérstaklega að þjóna heimamönnum á Suðurnesjum (Forseti hringir.) en þróunin hefur orðið sú að aðeins einn af hverjum fimm nemendum er frá Suðurnesjum, meiri hlutinn (Forseti hringir.) þar er nemar í fjarnámi.

Ég mun koma betur að lærdóminum ef ég fæ tóm til þess síðar í umræðunni.