139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í framhaldi af þeirri litlu tölu sem formaður menntamálanefndar, Skúli Helgason, flutti. Á fundi í menntamálanefnd í gær fór fram ógleymanleg kennslustund í boði Ríkisendurskoðunar á því hvílíkur hryllingur getur hlotist af því þegar valin er sú leið að stunda einstaklingsframtak eða einkarekstur á kostnað ríkisins. Ég á fyrst og fremst við Menntaskólann Hraðbraut. Málið sem varðar Keili er sem betur fer annars eðlis þó að það þurfi líka skoðunar við.

Þessi hryllingssaga í sambandi við opinberar fjárveitingar í gæluverkefni þar sem einstaklingar fara sínu fram, skammta sér arð eftir sínu eigin höfði, verður könnuð til hlítar og í menntamálanefnd mun ég — og ég held að það sé víðtæk samstaða um það — vísa þessu máli til umsagnar fjárlaganefndar þingsins svo ég bendi á að þetta mál er í vinnslu, það er í rannsókn og því er ekki lokið. Vonandi kemur aldrei annað slíkt mál til umræðu í þingsölum.