139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi fagna því sem fram hefur komið í umræðunni, að utanríkismálanefnd muni flytja þingsályktunartillögu um að leysa beri úr haldi væntanlegan nóbelsverðlaunahafa sem situr í haldi í Kína. Ég held að það fari vel á því að utanríkismálanefnd flytji þá tillögu. Mér heyrist að það verði mjög breiður stuðningur við það innan nefndarinnar og það er vel. Það má kannski segja að með því verði skilaboðunum endanlega komið skýrt á framfæri frá þinginu og ekki látið við það eitt sitja að þau liggi inni á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Síðan vil ég láta þess getið jafnframt í þessari umræðu vegna þess sem fram hefur komið í fjölmiðlum um skuldavanda heimilanna að nú er í bígerð frumvarp vegna breytinga á gjaldþrotalögunum. Ég held að það sé í grunninn ágætishugmynd að taka það til endurskoðunar þannig að fólk verði laust undan því að verða sótt vegna skulda sinna út yfir gröf og dauða eins og það er oft orðað. Þá skiptir líka afskaplega miklu máli að ríkisstjórnin upplýsi betur um skilyrði þess að lögunum verði breytt vegna þess að miðað við þær upplýsingar sem áður hafa fram komið verða ekki allar skuldir endanlegar felldar niður eftir tvö ár. Þannig hefur það a.m.k. ekki verið kynnt fyrir stjórnarandstöðunni á þessum upplýsingafundum sem haldnir hafa verið. Ef einhvern tíma skiptir máli fyrir eina ríkisstjórn að tala um hlutina af fullri ábyrgð og koma skýrt til skila þeim skilaboðum sem þarf að koma til skila til þjóðarinnar er það núna, vegna skuldavanda heimilanna.

Eitt sem getur t.d. skipt miklu í þessu máli er sá mikli fjöldi sem er að velta fyrir sér að fara í greiðsluaðlögun. (Forseti hringir.) Margir gætu velt fyrir sér núna hvort þeir ættu nokkuð að fara í greiðsluaðlögun ef allar skuldir falla niður eftir tvö ár. (Forseti hringir.) Menn verða að fara varlega með upplýsingar af þessum toga og ég kalla eftir því að stjórnarandstaðan fái þann aðgang sem sagt er í fjölmiðlum að við höfum fengið að þessu máli (Forseti hringir.) af því að það hefur ekki verið gert enn þá.