139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér kemur fram hjá bæði hv. þm. og formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, og hv. þm. Helga Hjörvar. Ég held að það sé markmið að við skoðum þetta sérstaklega. Ég fagna því að hér sé að koma fram frumvarp sem tengist gjaldþrotum því að við höfum örugglega gengið of hart fram gegn því fólki sem lent hefur í gjaldþrotum og þá skiptir líka miklu máli að skilaboðin séu skýr. Við vitum að þegar kemur að skuldamálum heimilanna, og þetta tengist auðvitað þeim málum þó að þetta sé ekki úrræði, hafa skilaboðin frá stjórnvöldum ekki verið skýr. Það er afskaplega mikilvægt að þær yfirlýsingar sem koma frá hæstv. ríkisstjórn séu þannig að menn velkist ekki í vafa um hvað sé í gangi þar.

Ég ræddi áðan skýr skilaboð varðandi fjárlögin því að núna sjáum við nefnilega fjárlög sem eru sönnun þess að þeir sem nú sitja í ríkisstjórn sögðu ekki satt og rétt frá fyrir síðustu kosningar. Og ein af ástæðunum fyrir því að fólk bregst við eins og raun ber vitni er sú að því var sagt allt annað, því var lofað allt öðru fyrir síðustu kosningar. Því er mikilvægt að menn láti af þessu, sem ætti nú ekki að þurfa að taka fram, og segi satt og rétt frá. Ég hvet stjórnarliða til að fara aðeins yfir skilaboðin sem þeir gefa núna varðandi þessi fjárlög og þau fjárlög sem við samþykkjum eftir ár, því að miðað við þær upplýsingar sem ég hef bestar ganga hæstv. ráðherrar fram núna, eins og ég nefndi áðan, og segja að menn séu búnir að ná endum saman og vandamálið búið eftir þessi fjárlög, ef þau ná (Forseti hringir.) fram að ganga. Virðulegi forseti. Það er alrangt.