139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðu hans áðan einkum vegna þess að þar komu fram aðeins ítarlegri upplýsingar um væntanlegt frumvarp hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra um gjaldþrotaskipti en við í þinginu höfum fengið áður. Það hefur reyndar mátt ráða af fréttum sumra fjölmiðla að frumvarpið hafi verið sýnt eða kynnt stjórnarandstöðuflokkunum en það hefur ekki gerst enn þá. (Gripið fram í: … stjórnarflokkunum.) Og kannski ekki stjórnarflokkunum heldur. Þær upplýsingar sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom með hér eru því viðbót við þær stuttorðu fyrirsagnakenndu fréttir sem komið höfðu af málinu áður.

Ég held að það sé líka ástæða til að taka undir tvennt annað sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom að í ræðu sinni. Annars vegar að það er auðvitað mikilvægt úrlausnarefni, og ekki bara í tengslum við þær þrengingar sem við göngum í gegnum núna, að auðvelda fólki sem lendir í gjaldþroti að ná sér á strik aftur og koma í veg fyrir að það sé einhvern veginn dæmt til að vinna undir yfirborðinu, eins og það er stundum kallað, árum og jafnvel áratugum saman af því að það á ekki möguleika á því að ná sér almennilega á strik vegna gamalla krafna. Það er mikilvægt að taka á því með einhverjum hætti, það er rétt hjá hv. þm. Helga Hjörvar og ber að fagna tillögum í þá veru.

Hins vegar er líka rétt að taka undir það sem hv. þingmaður sagði að þetta úrræði sem slíkt er ekki ætlað til lausnar á skuldavanda heimilanna. Það er auðvitað ekki þess eðlis (Forseti hringir.) og er mikilvægt að skoða það í því samhengi.