139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[14:49]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Í þeim miklu efnahagsþrengingum sem við stöndum frammi fyrir höfum við ekkert val. Við verðum að koma okkur út úr skuldabyrði ríkissjóðs á tiltölulega fáum árum og ná sjálfbærni í ríkisrekstrinum svo við getum til lengri tíma litið haldið uppi þeirri norrænu velferðarþjónustu sem við viljum standa að. Til að ná þessum jöfnuði birtist í fjárlagafrumvarpi næsta árs niðurskurður sem gengur mjög nærri grunnstöðvum og grunnþjónustu á flestum sviðum opinberrar þjónustu. Í þessu frumvarpi sem hinum fyrri sem samþykkt hafa verið frá hruni er forgangsraðað í þágu velferðarþjónustunnar. Það er ljóst að ekki er hægt að fara enn frekar í flatan niðurskurð á allar stofnanir. Forgangsröðun verkefna verður að koma til eins og lagt er til með eflingu grunnþjónustunnar, einkum heilsugæslunnar, sálfélagslegrar þjónustu við börn og unglinga, sjúkraflugs og heimahjúkrunar þar sem hjúkrunarrýmum er fækkað.

Fjárlagafrumvarpið endurspeglar þá sýn en jafnframt er ljóst að fyrir utan almennar aðhaldskröfur í rekstri heilbrigðisstofnana koma forsendur niðurskurðar ekki nægilega vel fram í frumvarpinu. Fækkun sjúkrarúma á almennum sjúkrahúsum, fækkun hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum ásamt skorti á samráði um niðurskurð hefur aukið óróleika og viðbrögð við frumvarpinu.

Ég verð að beina athygli þingmanna að því, hæstv. forseti, að í frumvarpinu kemur skýrt fram að unnið sé að endurskoðun og nánari útfærslu á ýmsum fjárlagaliðum. Þetta er heilbrigðisráðuneytið að gera, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, og þetta mun Alþingi gera í sinni vinnu. Það verður ekki hægt að ganga mikið lengra í hagræðingarkröfum á LSH og FSA ef halda á uppi núverandi þjónustu. En almenn sjúkrahúsaþjónusta á landsbyggðinni verður fyrir miklum niðurskurði. Hann er mjög sársaukafullur á nokkrum stöðum, bæði fyrir íbúa og starfsmenn, og það verður að fara vel yfir forsendur niðurskurðarins bæði með heimamönnum og við vinnslu frumvarpsins. Það á að endurspegla áhrif niðurskurðar á félagsþjónustu, öryggi íbúa, íbúaþróun og atvinnu þeirra kvenna sem að óbreyttu missa vinnuna. (Forseti hringir.) Þetta verður gert innan þess ramma sem við setjum okkur við afgreiðslu fjárlaga 2011 og fram til ársins 2013.