139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[14:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra hefur nálgast þetta mál. Hann tók við embætti sínu nokkrum dögum áður en þessar tillögur komu fram og hann hefur lýst því yfir nú þegar að þær verði teknar til endurskoðunar, ekki verði ráðist í uppsagnir og að samráð verði haft við þá sem í hlut eiga, þótt seint sé. Þessar tillögur komu eins og köld og óvænt vatnsgusa yfir heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni en með þeim er verið að gera tilraun til að ná fram verulegum niðurskurði, sparnaði og hagræðingu í heilbrigðiskerfinu, innan þeirra 15% af kerfinu sem heilbrigðisstofnanirnar úti á landi eru. Það er óásættanleg kerfisbreyting við mjög erfiðar aðstæður og mjög auðvelt er að efast um raunverulegan sparnað af henni. Til að taka dæmi þá kostar hvert sjúkraflug 300 þús. kr. og á sjúkrahúsinu á Ísafirði eru innlagnir 800 talsins. Ef helmingur sjúklinganna væri fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugi mundi það kosta 120 millj. kr. Það er hægt að draga mjög í efa raunverulegan sparnað sem fælist í þessum tilflutningi á verkefnum, hvað þá það er varðar jafnræði allra Íslendinga til búsetu, öryggi íbúa og fleira sem mundi tengjast því ef sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana yrði lokað.

Ég tel mjög mikilvægt að fjárlaganefnd og hæstv. heilbrigðisráðherra, líkt og hann hefur lýst yfir, endurskoði það að jafna hagræðingunni yfir kerfið allt út frá öryggi og raunverulegum sparnaði innan kerfisins. Hér er um að ræða kerfisbreytingu sem byggist á tillögum sem komu fyrst fram fyrir 15, 16 árum síðan. Þær eru allrar athygli verðar en þær er ekki hægt að framkvæma svona hratt án þess að gera það í samráði og við eðlilegri aðstæður í samfélaginu heldur en er nú um að ræða. Þess vegna fagna ég því að hæstv. ráðherra boðar samráð og endurmat þessara tillagna. (Forseti hringir.)