139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[15:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa staðfest það og eytt þar af leiðandi öllum vafa um að það verður engum starfsmanni sagt upp í heilbrigðisstofnunum landsins um næstu mánaðamót. Það er mikilvægt að þau skilaboð séu skýr frá hæstv. ráðherra og ég heyrði á umræðunni áðan að stuðningur alþingismanna við það að vinda ofan af þeirri vitleysu sem blasir við okkur er algjör, þvert á flokka.

Við erum nefnilega að tala um að ef þær aðgerðir sem birtast í fjárlagafrumvarpinu hefðu orðið að veruleika hefðu hundruð starfsmanna vítt og breitt að um allt land misst vinnuna á heilbrigðisstofnunum. Þá veltir maður fyrir sér, eins og einn hv. þingmaður spurði að hér áðan: Hver er þá raunveruleg byggðastefna? Hver er raunveruleg Sóknaráætlun 20/20 sem búið er að halda á lofti vítt og breitt um landið? Það er hjóm eitt þegar þessi stefnumörkun liggur fyrir.

Ég vil bara minna á að þegar menn leggja af stað með 40% niðurskurð á stofnun eins og t.d. heilbrigðisstofnun Þingeyinga sem hefur verið skert um fjárframlög á síðustu tveimur árum, er vegið að undirstöðum þeirrar stofnunar. Það er eðlilegt að fólk sé reitt og það er líka eðlilegt að fólk sé jafnvel hrætt við fyrirhugaðar ráðagerðir.

Þess vegna er mikilvægt að það hafi komið alveg skýrt fram í þessari umræðu að menn ætla að vinda ofan af fyrirhuguðum framkvæmdum. Við getum fundið margar leiðir í fjárlagafrumvarpinu til þess að spara. Við getum líka fundið margar leiðir til þess að breikka tekjustofnana. Ég ætla ekki að fara út í einhvern Icesave-samanburð (Forseti hringir.) og setja það í eitthvert samhengi, en þar var um að ræða 42 milljarða á ári í vaxtagreiðslur. En við skulum fyrst og síðast ná saman þvert á flokka um að henda þessum áformum og vinna málin saman (Forseti hringir.) upp á nýtt, en þá verður ríkisstjórnin líka (Forseti hringir.) að fara að sýna einhvern raunverulegan samstarfsvilja við Alþingi og fólkið í landinu.