139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

raforkulög.

60. mál
[15:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hnífurinn gangi ekki á milli okkar hæstv. ráðherra í þessu máli því að hnífasettin hafa aldeilis verið uppi á undangengnum mánuðum á vettvangi þingsins, þannig að það er nú gott að við skulum finna okkur þetta mál til að sameinast um.

Með allri góðri viðleitni hæstv. ráðherra og hennar ráðuneytis í þessu máli og fyrst þetta mál, þ.e. fjárlögin, er komið inn á borð Alþingis þá finnst mér að iðnaðarnefnd eigi líka að beita sér í því. Iðnaðarnefnd Alþingis ætti að kalla til, eins og hæstv. ráðherra nefndi hér áðan, Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum og aðra hagsmunaaðila til að fara yfir málið.

Ég held að við hæstv. ráðherra getum verið sammála um að sú upphæð sem hefur runnið til þessara níu þúsund heimila á köldum svæðum hafi hlutfallslega lækkað, m.a. vegna þess að mikil verðbólga hefur verið í landinu og kaupmáttur rýrnað.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé reiðubúin til að skoða þessi mál. Ég held að við eigum að vinna að því hér á vettvangi þingsins að ná fram þverpólitískri samstöðu um það að breyta áherslum í þessum efnum ef við erum á annað borð sammála um það að heimili á köldum svæðum eigi að vera jafnsett öðrum heimilum hér á landi. Ef við erum sammála um það, þá finnum við leið til að jafna þann mun með einhverjum hætti, vegna þess að sérstaklega á þessum tímum þar sem mikill samdráttur er og margir eiga mjög erfitt með að ná endum saman, þá er einfaldlega ekki hægt að horfa upp á það að níu eða tíu prósent heimila séu sett í allt annan flokk er varðar það sem ég vil meina að sé bara skattheimta. Þetta fólk er að borga ákveðinn skatt fyrir það að hafa ekki aðgang að heitu vatni. Það getum við ekki liðið í dag, sérstaklega ekki ef við viljum tryggja byggð á þessum svæðum þar sem til að mynda öflugur landbúnaður er stundaður, sem og öflugur sjávarútvegur, greinar sem skapa okkur mikinn gjaldeyri. Okkur veitir svo sannarlega ekki af því í dag.