139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[15:32]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi og fór til iðnaðarnefndar en hlaut ekki afgreiðslu.

Frumvarpinu er ætlað að skapa lagaumgjörð um þá vinnu sem farið hefur fram undanfarinn áratug við undirbúning að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skýra stöðu hennar gagnvart stjórnvöldum við gerð skipulagsáætlana og veitingu opinberra leyfa, þar eru með talin rannsóknar-, nýtingar- og virkjunarleyfi. Þá er frumvarpinu ætlað að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi vinnu við mat og flokkun á virkjunarkostum.

Við frumvarpsvinnuna var mjög horft til verkefnisstjórnar rammaáætlunar á undanförnum árum og þeirra stjórnsýsluferla sem til staðar eru. Þá var haft samráð við umhverfisráðuneytið og verkefnisstjórn annars áfanga rammaáætlunar, auk þess sem Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landvernd, Náttúrusamtökum Íslands og Samorku var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við efni þess.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um þær deilur sem hafa orðið á undanförnum árum um virkjanaframkvæmdir og stóriðjuuppbyggingu, en nýting sjálfbærra orkuauðlinda þjóðarinnar er samvinnuverkefni. Nýting orkulindanna og orkugeirinn er þjóðinni miklu mikilvægari en svo að hann megi vera átakavettvangur árum saman. Þess vegna er svo mikilvægt að við sameinumst um að ná sátt með rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma með skýrum gagnsæjum leikreglum.

Frumvarpinu er ætla að stuðla að vandaðri stefnumörkun um hvaða svæði sé hugsanlegt að nýta til orkuvinnslu og hvaða svæði eigi að vernda gagnvart slíkum framkvæmdum og tryggja að sjálfbær þróun sé höfð að leiðarljósi við þá stefnumörkun. Er frumvarpinu ætlað að stuðla að meiri sátt um orkuvinnslu og minnka óvissu orkufyrirtækja við val á virkjunarkostum.

Verði frumvarpið að lögum verða virkjunarmálin tekin úr þeim átakafarvegi sem þau hafa verið í og Alþingi verður þá falið það hlutverk að móta framtíðarstefnumörkun um nýtingu virkjunarkosta sem byggir á faglegri umfjöllun verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Í gegnum tíðina hefur samfara rammaáætlun verið unnið mikið og metnaðarfullt verk við að rannsaka, meta og flokka virkjunarkosti. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma á rætur sínar í sjónarmiðum um sjálfbæra þróun. Upphaf hennar má rekja aftur til ársins 1995 þegar starfshópur umhverfisráðherra um umhverfismál, iðnþróun og orkumál skilaði tillögum um að unnin yrði rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum.

Fyrsta verkefnisstjórn rammaáætlunar var skipuð árið 1999, hún skilaði skýrslu um 1. áfanga rammaáætlunar árið 2003. Ný verkefnisstjórn var síðan skipuð í september 2004 til að undirbúa fleiri virkjunarkosti til mats og bæta gögn eða endurskoða tilhögun ýmissa kosta sem teknir voru fyrir í 1. áfanga. Verkefnisstjórnin lauk störfum í maí 2007 og skilaði þá framvinduskýrslu.

Í september 2007 skipuðu svo iðnaðar- og umhverfisráðherra nýja tólf manna verkefnisstjórn til að ljúka gerð rammaáætlunarinnar og er henni ætlað að ljúka við 2. áfanga rammaáætlunar nú á þessu ári. Verkefnisstjórnin styðst við fjóra faghópa sem eru henni til aðstoðar við mat virkjunarkosta í 2. áfanga. Verksvið þeirra eru í fyrsta lagi náttúrufar og menningarminjar, í öðru lagi útivist, ferðaþjónusta og hlunnindi, í þriðja lagi efnahagsleg og félagsleg áhrif virkjana og í fjórða lagi virkjunarkostir og hagkvæmni þeirra. Faghóparnir luku störfum í febrúar og í mars efndi verkefnisstjórn 2. áfanga rammaáætlunar til opins kynningar- og umsagnarferils sem stóð til 3. maí. Niðurstöður faghópanna eru ekki lokaniðurstaða 2. áfanga, en þær leggja hins vegar grunninn að vinnu verkefnisstjórnar að flokkun virkjunarkosta og svæða sem tekur þá við að umsagnarferlinu loknu. Verkefnisstjórnin mun þá samþætta niðurstöðu faghópa og hafa umsagnir frá öðrum aðilum til hliðsjónar. Að því verki loknu leggur verkefnisstjórnin tillögur sínar í hendur stjórnvalda.

Tillögur um undirbúning og framsetningu verndar- og nýtingaráætlunar voru fyrst settar fram í skýrslu og frumvarpstillögum nefndar sem iðnaðarráðherra skipaði í apríl 2006 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis laga nr. 5/2006, um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Í framhaldinu lagði iðnaðarráðherra á 133. löggjafarþingi fram frumvarp til laga um breytingu á áðurnefndum lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem byggðust að verulegu leyti á tillögum nefndarinnar. Í frumvarpinu var m.a. lagt til að skipaðir yrðu tveir starfshópar, annar til að undirbúa tillögur forsætisráðherra um á hvaða svæðum landsins nýting á auðlindum í jörðu og vatnsafli yrði heimil og hin til að undirbúa tillögur um vernd svæða. Þá var lagt til að starfshóparnir gerðu tillögu um hvernig tekið yrði á þessum málum til framtíðar. Enn fremur var lagt til að skipaður yrði þriggja manna starfshópur til að vinna frumvarp um verndar- og nýtingaráætlun sem byggðist á tillögum starfshópanna. Í nefndaráliti sínu lagði meiri hluti iðnaðarnefndar til að frumvarpið yrði samþykkt með lítils háttar breytingum, en málið hlaut ekki afgreiðslu þingsins.

Frumvarp það sem nú er lagt fram gerir ráð fyrir nokkuð annarri nálgun en þeirri sem hér hefur verið lýst, enda þótt það byggi að verulegu leyti á sömu hugmyndum og fyrra frumvarp. Ræður þar mestu að veruleg vinna hefur farið fram á vegum verkefnisstjórnar rammaáætlunar við að ljúka undirbúningi að áætlun um vernd og nýtingu háhitasvæða og landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti fallvatna. Munu í lokagerð áætlunarinnar liggja fyrir mótaðar tillögur um flokkun virkjunarkosta sem iðnaðarráðherra í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra getur byggt tillögur um verndar- og nýtingaráætlun á samkvæmt frumvarpi þessu. Var því ekki talið nauðsynlegt að skipa sérstaka starfshópa til að fjalla um verndar- og nýtingaráætlunina.

Þá er hér lagt til að farin verði sú leið að verndar- og nýtingaráætlun verði lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem grundvallist á tillögum verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar. Með frumvarpi þessu er ætlunin að skapa verndar- og nýtingaráætluninni ákveðna stöðu að lögum en ekki mæla fyrir um efni hennar líkt og gert var ráð fyrir í áðurnefndu frumvarpi.

Í frumvarpi þessu er lögð fram mótuð tillaga um hvernig tekið skuli á málum til frambúðar. Í því sambandi er að miklu leyti byggt á hugmyndum sem viðraðar voru í skýrslu framangreindrar nefndar, þ.e. að skipuð yrði verkefnisstjórn sem starfaði með svipuðum hætti og fyrri verkefnisstjórnir rammaáætlunar og byggði á sjónarmiðum og aðferðum sambærilegum þeim sem verkefnisstjórnirnar hafa mótað. Líkt og fyrri verkefnisstjórnum er þessari eingöngu ætlað að hafa ráðgjafahlutverk.

Verði frumvarpið að lögum er á engan hátt hróflað við hlutverki opinberra stofnana á sviði rannsókna og stjórnsýslu. En markmið frumvarpsins er, eins og fram kemur í 1. gr. þess, að tryggja að nýting háhitasvæða og landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti fallvatna byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra virkjunarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo sem hagsmuni þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á að ákvarðanir um nýtingu landsvæða til orkuvinnslu séu teknar með lýðræðislegum hætti, en það er m.a. tryggt með aðkomu hagsmunaaðila og almennings um mótun tillagna um verndun og nýtingu landsvæða og með því að Alþingi samþykki verndar- og nýtingaráætlun.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það nái til háhitasvæða og landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti fallvatna jafnt innan eignarlanda sem þjóðlendna. Í 3. gr. frumvarpsins kemur hins vegar fram að verndar- og nýtingaráætlun Alþingis taki til lands- og virkjunarkosta sem verkefnisstjórnin hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira, eða uppsett varmaafl um 50 MW eða meira. Lagt er til að áætlunin taki ekki til stækkunar á virkjun nema stækkunin feli í sér matsskyldar framkvæmdir samkvæmt úrskurði á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum. Loks er lagt til að verndar- og nýtingaráætlun taki ekki til landsvæða sem njóta friðlýsingar í samræmi við 50. gr. laga um náttúruvernd, nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði.

Helstu efnisatriðum frumvarpsins má skipta í fjóra þætti.

Í fyrsta lagi er gert er ráð fyrir að Alþingi taki í formi þingsályktunar afstöðu til flokkunar virkjunarkosta fallvatna og háhitasvæða á landinu öllu eftir því hvort stjórnvöldum er heimilt að veita leyfi vegna þeirra. Þá beri að kanna frekar eða hvort ástæða þyki til að vernda ákveðin landsvæði gagnvart orkuvinnslu. Þannig séu virkjunarkostir á svæði flokkuð í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk.

Lagt er til að verndar- og nýtingaráætlunin gildi til 12 ára, en þingsályktunartillaga verði lögð fyrir Alþingi eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Lagt er til að stjórnvöldum sé heimilt en ekki skylt að veita leyfi til orkuvinnslu vegna þeirra virkjunarkosta sem falla í nýtingarhluta áætlunarinnar. Verndar- og nýtingaráætlunin feli því ekki í sér afstöðu þingsins til þess hvaða virkjunarkostir skuli nýttir á tímabilinu, heldur eingöngu hvaða virkjunarkostir geti farið í hefðbundið leyfisveitingaferli og hvaða virkjunum sé heimilt að gera ráð fyrir í skipulagi sveitarfélaga. Hins vegar er gert ráð fyrir því að áætlunin sé bindandi við gerð skipulagsáætlana og sveitarstjórnir verði samkvæmt því að samræma svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir verndar- og nýtingaráætluninni innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Frá þeirri meginreglu er gerð sú undantekning að sveitarstjórn sé heimilt að fresta ákvörðun um landnotkun samkvæmt verndar- og nýtingaráætlun í allt að 10 ár.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að þingsályktunin hafi skýra stöðu að lögum og að hún bindi hendur stjórnvalda við leyfisveitingar og gerð skipulagsáætlana og liggi til grundvallar ákvarðanatöku um friðlýsingu landsvæða. Þannig segir í 4. gr. frumvarpsins að stjórnvöldum sé heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum og orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem séu í nýtingarflokknum. Í 5. og 6. gr. er hins vegar lagt til að stjórnvöldum sé ekki heimilt að veita leyfi tengd orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem séu í biðflokki. Hins vegar verði heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum og stunda orkurannsóknir á svæðum í byggð og verndarflokki að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.

Í þriðja lagi er kveðið á um að faglegur undirbúningur að síðari verndar- og nýtingaráætlunum verði í höndum ráðgefandi verkefnisstjórnar. Í 8. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um skipan verkefnisstjórnar. Lagt er til að í henni verði sex manns sem verði þá skipaðir af iðnaðarráðherra til fjögurra ára í senn samkvæmt tilnefningum umhverfisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Verkefnisstjórnin annist upplýsingaöflun, faglegt mat og gerð tillagna til ráðherra vegna verndar- og nýtingaráætlunar. Kveðið er á um að verkefnisstjórn skuli skipa faghópa með sérfræðingum á viðeigandi sviðum sem fari yfir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli, meti þau með stigagjöf og sendi tillögu til verkefnisstjórnar. Fjöldi faghópa og skipan þeirra verður ákveðinn af verkefnisstjórninni. Í 9. gr. frumvarpsins er svo að finna ákvæði um verksvið og verklag verkefnisstjórnar. Verkefnisstjórnin reiði sig líkt og fyrri verkefnisstjórnir á starfandi stjórnvöld og stofnanir og hafi víðtækt samráð við frjáls félagasamtök, hagsmunaaðila og aðra þá sem geti þurft að leita til.

Í fjórða lagi hefur 10. gr. frumvarpsins að geyma ákvæði um undirbúning að tillögu að verndar- og nýtingaráætlun. Þannig er lagt til að verkefnisstjórnin leggi faglegt mat á vinnu faghópa, mat sitt byggi hún á upplýsingum sem fyrir liggja um þætti sem taka skuli tillit til í verndar- og nýtingaráætlun og beiti við það samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum. Verkefnisstjórninni verði ætlað að leita eftir samráði og faglegri aðstoð hjá viðkomandi stofnunum, stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtökum, hagsmunaaðilum og öðrum aðilum. Að fengnum niðurstöðum faghópa vinni verkefnisstjórnin drög að tillögum um flokkun virkjunarkosta og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða í samræmi við flokkunina.

Hvað varðar gagnaöflunina er miðað við að verkefnisstjórnin leiti umsagnar Umhverfisstofnunar og Fornleifaverndar ríkisins um hvort fyrirliggjandi gögn varðandi einstaka virkjunarkosti séu nægjanleg til að meta þá þætti sem taka skuli tillit til í verndar- og nýtingaráætluninni. Mikilvægt er að leggja áherslu á að taka verði mið af því að um heildstætt frumvarp er að ræða, en ekki mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda líkt og fram fer á grundvelli laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Því verður ekki gerð sambærileg krafa um gagnaöflun í tengslum við vinnu verkefnisstjórnar og faghópa. Teljist gögn hins vegar ófullnægjandi skal verkefnisstjórnin láta safna viðbótargögnum og vinna úr þeim áður en eiginlegt matsferli hefst. Í greininni er einnig lagt til að sá undirbúningur verði gagnsær og að almenningi verði kynntar tillögur verkefnisstjórnarinnar og fái tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en endanlegar tillögur eru lagðar fram á Alþingi. Þá skal verkefnisstjórn miðla upplýsingum um starf sitt með opinberum hætti.

Að loknu samráðs- og kynningarferli leggur verkefnisstjórn fyrir ráðherra rökstuddar tillögur um flokkun virkjunarkosta og afmörkun landsvæða í samræmi við flokkunina. Ráðherra tekur tillögu verkefnisstjórnar til skoðunar og gengur frá tillögu um verndar- og nýtingaráætlun. Ef lagðar eru til breytingar á tillögu verkefnisstjórnar skal leita umsagnar um þær og kynna almenningi áður en tillaga að verndar- og nýtingaráætlun er síðan lögð fram á Alþingi.

Verkefnisstjórn 2. áfanga rammaáætlunar hefur nú til skoðunar þær umsagnir sem bárust við niðurstöður faghópanna. Verkefnisstjórnin og faghópar vinna nú úr þeim og munu gera á næstunni og skila síðan af sér tillögum um flokkun virkjunarkosta og landsvæða.

Verði þetta frumvarp að lögum mun verndar- og nýtingaráætlun verða lögð fyrir Alþingi eins og kveðið er á um í frumvarpi þessu. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar að lokinni þessari umræðu.