139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[15:49]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það skipti máli að við förum að vinna okkur inn í einhverja sátt í þessum efnum enda alveg gríðarlega mikið í húfi þegar auðlindir þjóðarinnar eru undir. Hingað til hafa verið mikil átök á milli einstakra svæða á landinu og það hlýtur að vera til heilla fyrir málaflokkinn að við erum komin með einhverja yfirsýn yfir kostina sem uppi á borðum eru, og þá líka verndarkostina sem eru ekki síður mikilvægir.

Hv. þingmaður spurði í fyrsta lagi hvenær þessi þingsályktunartillaga með flokkuninni kæmi inn í þingið. Þetta frumvarp er í raun og veru grundvöllur þess vegna þess að í því er kveðið á um hvernig fara skuli með þessa þingsályktunartillögu, og þá flokkunina, í gegnum þingið og hvaða lögformlegu stöðu hún hafi. En ég geri ráð fyrir við verðum komin með niðurstöðu frá nefndinni, eða ég vonast til þess, að hún verði tilbúin fyrir jól eða í desember. En grundvöllurinn er að við klárum rammann utan um meðferð málsins.

Hv. þingmaður spurði mig fleiri spurninga en ég verð að viðurkenna að ég man þær ekki. (Gripið fram í: Heimilt en ekki skylt.) Já, heimilt en ekki skylt, afsakið. Það sem kveðið er á um í frumvarpinu er að þessir kostir geti farið í leyfisveitingaferli. Það er því ekki stjórnvalda að ákveða á þeim grunni hvort og hvernig skuli virkja heldur er það þannig að ef kostur er í nýtingarflokki er heimilt að setja leyfisveitingaferli af stað og þá taka við lög sem um það gilda.