139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[15:53]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Varðandi endaafurðina, eins og hv. þingmaður nefnir það, geri ég ráð fyrir að hún geti komið inn í þingið fyrir jól. Síðan þarf þingið náttúrlega að fjalla um hana og það er þá meðferð hennar innan þingsins sem ræður því hvenær hún liggur endanlega fyrir.

Varðandi þetta ferli þá er það svo að frumkvæðið þarf að koma frá þar til bærum aðilum um að þeir vilji nýta kostinn sem fjallað hefur verið um og settur hefur verið í nýtingarflokkinn í verndar- og nýtingaráætluninni. Segjum að það sé gert og þá tekur hið almenna leyfisveitingaferli við. Hver niðurstaðan af því svo er fer eftir því hver niðurstaðan úr mati á umhverfisáhrifum og öðru slíku, sem þau lög kveða á um, verður. Við þekkjum þá ferla, það eru þeir sem við búum við í dag.

Þetta fjallar um að þau svæði sem eru í nýtingarflokki geti farið í leyfisveitingaferlið en þau í verndarflokki geti (Forseti hringir.) það ekki.