139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[15:56]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég legg ekki fram frumvörp, eða set inn greinar, til að friðþægja einn eða neinn. Það er hins vegar rétt að þetta mál hefur verið unnið í góðu samráði milli iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra sem fara með þessa málaflokka.

Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að þessar friðlýsingar eru frá mjög ólíkum tímum og þær eru mjög ólíkar í sér. En það liggur fyrir yfirlit yfir þær, gott yfirlit, hjá Umhverfisstofnun og þar er öllu haldið til haga. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég veit að iðnaðarnefnd var byrjuð að skoða þegar síðasta þingi lauk og ég geri ráð fyrir að hún haldi þeirri skoðun áfram. Það er rétt að um þetta atriði eru skiptar skoðanir, hvort friðlýst svæði eigi þá ekki að setja í verndarflokkinn. Ég bið menn einfaldlega að fara vandlega yfir þetta. Ég held að það sem skipti mestu máli í þessu sé að við förum að koma skikki á þessa hluti. Ég tel að það skipti máli að við förum í gegnum þær friðlýsingar sem fyrir eru og hafa verið gerðar í gegnum tíðina og menn reyni að samræma þær að einhverju leyti og hugsanlega styrkja þær. Sumar þeirra þyrfti að styrkja.