139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að flytja þetta mál og bera það upp. Ég held að hér sé á ferðinni afar mikilvæg lagasetning og, eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir kom inn á áðan, undanfari þess að hægt verði að leggja fram þingsályktunartillögu um rammaáætlun.

Alls staðar í frumvarpinu er talað um verndar- og nýtingaráætlun fyrir fallvötn og háhitasvæði og mig langar að velta því upp hvort hæstv. ráðherra finnist þetta vera full þröngt. Í frumvarpinu er síðan talað um landsvæði og það er talað um verndun og það er talað um náttúruvernd o.s.frv., til að mynda í greinargerðinni. Nú vitum við að náttúruspjöll og umhverfisvernd ná til miklu fleiri þátta en bara fallvatna og jarðhita. Við höfum til að mynda séð víða erlendis vindmyllubúgarða sem hafa breytt ásýnd heilu héraðanna og heilu strandsvæðanna alveg gríðarlega mikið þannig að það nær ekki til þessa væntanlega. Nú er verið að tala um virkjunarkosti eins og virkjun sjávarfalla og svokallaðar osmótískar virkjanir o.s.frv., sem geta haft gríðarleg áhrif á umhverfið. Kannski er ástæða til að velta því upp, a.m.k. í meðförum þingsins og jafnvel í meðförum iðnaðarnefndar, hvort víkka eigi þessar skilgreiningar. Mér þætti gaman að fá álit hæstv. ráðherra á þessu.