139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mikil og góð vinna hefur farið fram um þetta mál sem á að vera til þess unnið og var upp með það lagt að það mundi skapa okkur mikilvæga framtíðarsýn og mögulega góða sátt um þennan mikilvæga málaflokk til lengri tíma litið. Frumvarpið sem hér er lagt fram hefur háleit markmið, eins og segir í 1. gr.:

„Markmið laga þessara er að tryggja að nýting háhitasvæða og landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti fallvatna byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Þetta eru mjög háleit markmið en þó að við náum þessum lögum í einhverri útfærslu í gegn, sem ég bind vonir við, geri ég mér nú ekki vonir um að ágreiningurinn muni algerlega hverfa hjá okkur í þessum mikilvæga málaflokki. Reyndar er kveðið á um það í frumvarpinu að haft skuli nokkuð víðtækt samráð og margir aðilar skuli koma að. Það er í sjálfu sér ágætt en það er þessi fína lína milli verndunar og nýtingar sem er okkur svo mikilvæg.

Það vaknar ákveðin tortryggni þegar maður fer að kynna sér frumvarpið. Það eru einhverjar breytingar á því frá því sem var á síðasta þingi. Ef þetta er lagt fram í fullri sátt innan þingflokks Vinstri grænna er ekki óeðlilegt að ákveðnar efasemdir vakni og ákveðin tortryggni hjá þeim sem vilja ganga þessa skynsamlegu leið nýtingar og verndunar. Vissulega er ástæða til þess þegar maður lítur t.d. á 3. gr. og þau atriði sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gerði hér að umtalsefni áðan.

Ráðherra tók ítrekað fram í andsvörum sínum hér áðan við fyrirspurnum að hún liti til þess að iðnaðarnefnd færi vandlega yfir þetta mál og tæki það til ítarlegrar umfjöllunar. Það mun hv. iðnaðarnefnd örugglega gera, og ég kvíði ekki samstarfi innan hennar. Iðnaðarnefnd er skipuð góðu og skynsömu fólki og ég vona að við getum náð þar eins breiðri samstöðu og hægt er. Það er auðvitað þjóðhagslega gríðarlega mikilvægt að við getum forgangsraðað í þágu þjóðar eins og lagt er upp með í markmiðum frumvarpsins.

Verndun er gert mjög hátt undir höfði eða svo virðist manni við fyrstu sýn á þetta frumvarp. Ég held að það sé í sjálfu sér ágætt. Það er mjög mikilvægt að ná breiðu samkomulagi um augljós verndarsvæði í landinu þegar kemur að stórum og miklum framkvæmdum sem fylgja virkjunarframkvæmdum. Í 6. gr. er t.d. alveg sérstakur verndarflokkur þar sem stjórnvöldum er ekki heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem eru í verndarflokki, eða eru á svæðum sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Þá voru aðrar orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar einnig óheimilar.

Þarna er augljóslega verið að gefa verndunarvæginu mjög sterkt gildi. Þetta kemur fram í helstu efnisatriðum frumvarpsins þar sem þau eru talin upp. Þar segir að það beri að kanna hvort ástæða þyki til að vernda ákveðin landsvæði gagnvart orkuvinnslu og lagt er til að iðnaðarráðherra vinni tillögu til þingsályktunar og kveðið á um mjög náið samstarf umhverfisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins í allri málsmeðferð í þessu.

Það er mjög mikilvægt að verndunarsinnar og þeir sem vilja skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda, getum við sagt, nái að einhverju leyti saman. Auðvitað er engin launung að ég er í hópi þeirra sem hafa talað fyrir því að náttúruauðlindir okkar séu nýttar til orkuöflunar, auðvitað innan skynsamlegra marka. Ég tel mig náttúruverndarsinna. Ég tel mig alls ekki vilja ganga neitt á viðkvæma náttúru landsins, en ég tel mjög mikilvægt að við horfum til þess að það er orkuvinnsla og það eru þessar náttúruauðlindir sem eru okkar þjóð svo dýrmætar í allri atvinnusköpun og uppbyggingu til lengri tíma litið og einnig til skemmri tíma litið.

Jafnmikið og verndunarsinnum finnst ég eflaust vera öfgamaður á þessum vettvangi, þá finnst mér oft öfgasjónarmið ráða ferð þar og ég hræðist það auðvitað í þessu. Það hefur nú verið þannig að þegar hér hefur verið rætt um mögulega virkjunarkosti hefur fátt verið nefnt af þeim sem vilja ganga lengst í verndun, jafnvel augljósir hagkvæmir virkjanakostir eins og Norðlingaalda, sem hefur ekkert með Þjórsárver að gera, virkjanakostir í Neðri-Þjórsá, þessu er reynt að ýta út af borðinu og reynt að tefja alla málaleitan á þessum vettvangi eins og hægt er. Þetta eru vinnubrögð sem ekki ganga. Verndunarsinnar verða líka að koma þá með sínar tillögur upp á borðið. Vissulega er þetta frumvarp tilraun til þess að reyna að vinna að víðtækri sátt þó að ég geri mér ekki vonir um það að allur ágreiningur muni hverfa til lengri tíma.

Í 8. gr. frumvarpsins er talað um verkefnisstjórnina og um að ráðherra skipi sex manna verkefnisstjórn til fjögurra ára í senn sem er ráðherra til ráðgjafar í undirbúningi og gerð tillagna fyrir verndar- og nýtingaráætlun samkvæmt lögum þessum. Þarna enn og aftur sést hvað umhverfissjónarmiðum er gert vel undir höfði og það er gott. Þarna eru tveir stjórnarmenn tilnefndir af umhverfisráðherra, einn af mennta- og menningarmálaráðherra, auk þeirra sem iðnaðarráðherra tilnefnir og annar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ég held að það sé alveg augljóst í gegnum lestur á þessu að það er verið að gera verndunarsjónarmiðum hátt undir höfði og þeim sem fara fyrir þeim málaflokki mjög ríka nálgun að þessum málum og jafnvel enn ríkari en áður hefur verið.

Í 13. gr. er bráðabirgðaákvæði þar sem talað er um þá tillögu til þingsályktunar sem er skv. 3. gr., að hún skuli fyrst lögð fram á Alþingi þegar fyrir liggi tillögur verkefnastjórnar um rammaáætlun, nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur boðað það hér að við megum vænta þess að þessi þingsályktunartillaga líti dagsins ljós strax á þessu þingi. Ég fagna því.

Á sama tíma verð ég að segja það að hæstv. umhverfisráðherra þarf svolítið að skoða sinn hug og sínar aðgerðir í því sambandi. Hún hefur boðað það að stækka friðunarsvæði kringum Norðlingaölduveitu á sama tíma og þessi mál eru í vinnslu. Þarna er verið að kasta olíu á eld. Við erum hér með ákveðinn farveg þar sem er verið að taka mjög sterkt tillit til allra þátta. Það er verið að taka mjög ríkt tillit til umhverfisþátta og umhverfissjónarmiða og það er mjög mikilvægt að það sé þá sú virðing sýnd í allri vinnu og öllum aðdraganda þess að menn séu ekki að efna til ófriðar að óþörfu.

Það liggur alveg fyrir og hefur sést og ítrekað komið fram að Norðlingaölduveita er til að mynda einn hagkvæmasti virkjunarkosturinn sem við eigum í dag. Það er bæði í umhverfislegu tilliti og í efnahagslegu tilliti. Það er mjög lítið af grónu landi sem fer undir land. Það er búið að breyta þessum upphaflegu hugmyndum þannig að þetta á vel að geta fallið að víðtækri náttúruvernd á svæðinu. Þetta er mjög skynsamleg nýting. Þetta er mjög hagkvæm virkjun kostnaðarlega séð. Hún kostar aðeins um 2/3 hluta þess sem Búðarhálsvirkjun kostar þó að hún muni gefa frá sér eða útvega sama raforkumagn, þannig að það eru þessi vinnubrögð sem við þurfum að reyna að vanda okkur við ef við ætlum að reyna að ná saman á svolítið víðtækum vettvangi í þessu.

Ég hef þetta ekki mikið lengra, virðulegi forseti. Ég er búinn að fara svona yfir þetta. Það er mjög mikilvægt að við sættumst á það í umræðu okkar um þessi mál að nýting náttúruauðlinda er ekki síður mikilvæg en verndun náttúrunnar. Við þurfum að feta þá slóð að ná einhverri niðurstöðu í þetta. Miklar vonir eru bundnar við rammaáætlun, að hún skili ákveðinni sátt og ákveðnum friði. Það hefur verið höfð uppi mikil gagnrýni af aðilum vinnumarkaðarins á allt það ferli sem allar slíkar framkvæmdir sem við tölum hér um þurfa að fara í. Ég vil t.d. minna á gagnrýni ASÍ frá síðasta vetri þar sem komu fram mjög hörð skilaboð um að við yrðum að liðka fyrir allri skipulagsvinnu og ferlið væri íþyngjandi og gerði samkeppnishæfi landsins veikt gagnvart mögulegum erlendum aðilum sem vildu fjárfesta í atvinnulífi. Þetta þarf að taka til skoðunar líka, hvort við erum mögulega að fara með þessu frumvarpi enn lengra á þeim vettvangi. Hæstv. umhverfisráðherra fékk heimild á síðasta þingi til að lengja umsagnarfrest sinn um mál. Ég tel að það hafi verið miður. Ég held að það hafi ekki verið til þess fallið að auka samkeppnishæfi okkar. Ég vona að sú verði ekki reyndin með þessu frumvarpi. Það hlýtur að vera verkefni iðnaðarnefndar að reyna að meta það hvernig þetta ferli er.

Í 5. gr. er t.d. talað um biðflokk. Ef verkefni eru sett í biðflokk má ekki eiga neitt við svæðið á meðan, þá er allt stopp. Það er í sjálfu sér ekkert sagt um það í sömu grein hvernig það skuli meðhöndlað eða hvaða tímarammar eru á þessu. En þetta er einn af þeim hlutum og eitt af þeim verkefnum sem bíður iðnaðarnefndar. Eins og ég ítrekaði áðan, virðulegi forseti, og vil ítreka nú, á ég ekki von á öðru en að eins og iðnaðarnefnd er skipuð verði bara góð sátt um vinnuna þar. Ég vænti þess og vona að við náum víðtækri pólitískri sátt um þessa fínu línu sem liggur á milli verndunar og nýtingar í íslenskri náttúru.