139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi gagnrýni hefur ítrekað komið fram, sérstaklega frá aðilum vinnumarkaðarins og ég nefndi hér alveg sérstaklega ASÍ sem gagnrýndi á þingi sínu síðast mjög harðlega það ferli sem hér er í gangi og sagði hreinlega að það drægi mjög úr samkeppnishæfi landsins. Iðnaðarnefnd hv. fékk á fund sinn í haust, á septemberþingi, fulltrúa þeirra ráðuneyta og stofnana sem eru að selja Ísland á erlendum vettvangi, ef við getum orðað það svo, Fjárfestingarstofu, iðnaðarráðuneytis og utanríkisráðuneytis meðal annarra. Þar kom fram að tækifæri til að laða hingað erlenda fjárfesta hefðu aldrei verið eins og nú en erfiðleikarnir væru fyrst og fremst fólgnir í því að það væri erfitt að gefa svör. Það væri ekki hægt að svara því hvenær við gætum afhent orku. Það væri ekki hægt að svara því hvað umhverfismat og annað sem snertir þá starfsemi sem menn eru að horfa til tæki langan tíma. Þessir aðilar voru sammála um það að þegar við værum að bera okkur saman við okkar helstu samkeppnisþjóðir og þá eru menn fyrst og fremst að horfa til Evrópu, margra landa þar, þá væri búið að undirbúa og vinna þessi mál miklu meira þar en hér. Menn eru að horfa til þess og þeir fullyrtu að samkeppnishæfi okkar væri skert út af þessu. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig reglurnar eru í þeim löndum sem um er rætt í þessu sambandi, en þetta eru sérfræðingar okkar á þessu sviði sem eru að berjast við að kynna landið sem álitlegan fjárfestingarkost fyrir erlenda aðila sem vilja fjárfesta í atvinnulífi hér. Hér er um að ræða heildarsamtök launþega og atvinnurekenda sem hafa haft uppi sömu gagnrýni á sömu forsendum.