139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að málið sé fram komið í þinginu þannig að það geti komið til umræðu og afgreiðslu. Hér er um mál að ræða sem á sér töluvert langan aðdraganda. Mikilvægt er að sköpuð sé lagaumgerð um vinnu við undirbúning að rammaáætlun sem staðið hefur um allnokkurt skeið.

Það hefur mikið verið talað um það á undanförnum árum að skapa þurfi sátt í samfélaginu milli þeirra sem vilja nýta fallvötn og háhitasvæði og þeirra sem vilja vernda. Ég tel að í raun og veru sé ekki svo langt á milli þessara hópa. Ég tel að allir Íslendingar skilji það að við eigum miklar auðlindir. Við eigum að nýta þær skynsamlega án þess að ganga of harkalega að landinu okkar. Ég tel að allir menn séu sammála um þetta þegar þeir horfa út fyrir rammann.

Þetta stóra verkefni, að reyna að ná sátt, var sett inn í þennan farveg. Verkefnisstjórn að rammaáætlun hefur nú starfað í allnokkur ár. Annar áfangi er langt kominn. Hann ætti í rauninni að vera kominn inn í þingið fyrir alllöngu síðan, en það er önnur saga. Sem dæmi þá hefur tekið langan tíma að búa þetta frumvarp til. Ég hlakka til að taka þátt í vinnunni að móta þessa lagaumgjörð. Það er mikilvægt að við höldum vel utan um þetta stóra hagsmunamál okkar og reynum að taka stórar, góðar og vel ígrundaðar ákvarðanir þar sem við reynum að horfa til beggja sjónarmiða.

Hins vegar er margt í frumvarpinu sem þarf að skoða betur og ég ætla að fara yfir nokkur atriði. Í fyrsta lagi er mikilvægt að stjórnsýslan, sem heldur utan um málin þegar þau eru komin í þennan farveg, skýri hver fer með valdið á hvaða sviði. Það er ljóst að flækjustigið er talsvert á því hvaða réttaráhrif verndar- og nýtingaráætlunin mun hafa gagnvart skipulagsmálum.

Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið hér á landi. Það hefur gætt aukinnar tilhneigingar af hálfu ríkisvaldsins að skerða skipulagsvald sveitarfélaganna (Gripið fram í.) með lögum og áætlunum sem eiga að gilda á landsvísu.

Samband íslenskra sveitarfélaga sendi inn athugasemdir við þetta frumvarp, það kom fram á síðasta þingi, þar sem ítarlega er farið yfir málið. Þar lýsir sambandið afstöðu sinni gagnvart frumvarpinu sem hér um ræðir og gerir margar athugasemdir við það að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því í 7. gr., að því er mig minnir, að sveitarstjórnir skuli samræma gildandi svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir að verndar- og nýtingaráætluninni. Það er þá verndar- og nýtingaráætlunin sem gildir ofar sveitarstjórnum, sem sagt skipulagsvaldi sveitarstjórna. Þetta er stórt atriði. Þarna er um mikla breytingu að ræða. Yfir þetta lagaákvæði þarf að fara ítarlega í iðnaðarnefnd. Ég vonast til að það verði gert. Það er mikilvægt að heimamenn á hverju svæði, eigi þeir að fara með skipulagsvaldið, hafi það í raun en að ríkið taki það ekki af þeim. Þarna er um verulega íhlutun að ræða en engu að síður ætlum við okkur að ná sátt. Þá þarf að ræða með hvaða hætti best sé að gera það. Ég tel að fara verði ítarlega yfir athugasemdirnar sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent inn.

Varðandi greinina sem ég fór yfir í andsvari mínu við hæstv. iðnaðarráðherra, 3. mgr. 3. gr., þá er gert ráð fyrir því að verndar- og nýtingaráætlun taki ekki til landsvæða sem njóta friðlýsingar í samræmi við 50. gr. laga um náttúruvernd nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði. Að mínu mati er á ferðinni eftirábreyting á forsendunum sem bæði verkefnastjórnin hefur unnið eftir og aðilar sem tóku þátt í friðlýsingu svæðanna sem þegar eru friðlýst. Ég tel að þarna sé vantrausti lýst á verklagið varðandi vinnu verkefnisstjórnar að rammaáætlun. Ég tel að menn eigi einfaldlega að treysta verklaginu og treysta aðferðafræðinni vegna þess að aðferðafræðin er vönduð. Það hafa margir af okkar færustu sérfræðingum komið að því að móta hana þar sem þingmenn allra flokka hafa í gegnum árin talað fjálglega um að með rammaáætluninni sé ætlunin að skapa sátt. Það er dapurlegt að sjá þessa tilraun til íhlutunar á allri forsendu vinnunnar eftir á. Mér þykir einkennilegt að þetta komi fram að þessu leyti.

Í rammaáætlun verkefnisstjórnarinnar hefur verið leitast við að búa til vandaða aðferðafræði sem kemur til með að skila ákveðinni röðun á kostunum sem til skoðunar eru. Svæðin sem ætti að flestra mati að vernda og friðlýsa munu sjálfkrafa fara í gegnum aðferðafræðina og matið sem fram fer hjá verkefnisstjórn um rammaáætlun til að þau lendi í verndarflokki, að mínu mati segir það sig sjálft. Ég skil ekki hvers vegna ríkisstjórnarflokkarnir geta ekki stillt sig um að reyna að fjarstýra því sem fram fer þar á bæ.

Það komu fram athugasemdir við þetta ákvæði lagafrumvarpsins á fyrra þingi frá flestöllum aðilum. Samband íslenskra sveitarfélaga gerir athugasemdir við þetta og tekur fram, með leyfi forseta:

„Það mun vera nokkuð tilviljanakennt hvort í friðlýsingarskilmálum er tekin afstaða til hugsanlegrar virkjunar og er að áliti sambandsins mun eðlilegra að fela verkefnisstjórn það verkefni að taka afstöðu til verndarhagsmuna einstakra svæða út frá þeirri aðferðafræði sem upphaflega var lögð til grundvallar, fremur en binda hendur hennar með þeim hætti sem hér er lagt til.“

Ég tel að Samband íslenskra sveitarfélaga sé þarna að hugsa hlutina á réttan hátt. Jafnframt taka þeir fram, af því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þegar rammaáætlun hefur tekið gildi eigi stjórnvöld að hefja vinnu við að friðlýsa svæðin sem falla í verndarflokk, að ákvæði 3. mgr. 3. gr. komi til með að hægja á ferlinu. Að það verði gengið varanlega frá friðlýsingu gagnvart orkuvinnslu. Það þurfi í rauninni ekki á því að halda því að 3. mgr. 3. gr. trompi þetta í rauninni. Að ótöldu dæminu sem hv. þm. Jón Gunnarsson tók fram, þar sem umhverfisráðherra reynir að stækka friðlandið við Þjórsárver til þess að hafa áhrif á niðurstöðuna, verður úr þessu máli ankannaleg nálgun hjá hæstv. umhverfisráðherra. Ég ætla ekki að orðlengja það meira þar sem hv. þm. Jón Gunnarsson fór ítarlega yfir það.

Frú forseti. Ég mæli með því að 3. mgr. 3. gr. verði felld úr frumvarpinu. Hún er óþörf og skekkir heildarmyndina. Í rauninni lítur út fyrir að hún sé sett fram til að friðþægja þingmenn Vinstri grænna. Mér skilst að frumvarpið hafi legið hjá þingflokki Vinstri grænna í marga mánuði á síðasta þingi og sé í raun ástæðan fyrir því að málið kom ekki fram fyrr og fékk ekki afgreiðslu á síðasta þingi, sem er alvarlegt. Það bíða allir eftir rammaáætluninni. Það bíða allir eftir því að umgjörð og heildarsýn á vernd og nýtingu okkar stærstu og verðmætustu auðlindum verði að veruleika. Meðan málið er í biðstöðu, sem ríkisstjórnarflokkarnir bera ábyrgð á, þá gerist ekkert. Það er ekki veitt rannsóknarleyfi og þá frestum við að hjól atvinnulífsins nái að snúast og verndun svæðanna, sem vissulega koma til með að verða allnokkur í ljósi aðferðafræðinnar sem beitt er í þessu máli, nái fram að ganga. Um leið og ég fagna því að frumvarpið sé komið fram þá harma ég það hversu lengi það hefur dregist að ná því í gegnum þingið og að það hafi ekki náðst fram á síðasta þingi.

Frú forseti. Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja þessi mál frekar. Ég fagna því að frumvarpið sé komið fram og vonast til að fram fari vönduð og ítarleg umræða í iðnaðarnefnd sem fær málið væntanlega til umfjöllunar. Ég ber þá von í brjósti að það verði horft á sjónarmiðin sem fram munu koma í athugasemdum sem væntanlega verða hliðstæð þeim sem komu fram á fyrra þingi.