139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:38]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að koma upp vegna ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur. Erindið er ekki að fara í hnútukast við hana um grundvöll vinnunnar, sem er ákveðinn sáttaleiðangur sem allir hafa vakið máls á, heldur eru ákveðnar skekkjur í málflutningi hennar sem ég held að rétt sé að benda á. Í fyrsta lagi:

Hún talar um eftirábreytingu gagnvart þeim sem hafa unnið vinnuna og er þá að ræða um frumvarp sem er stjórnarfrumvarp og fer síðan til umfjöllunar Alþingis. Það er vandræðalegt í ljósi þeirrar vinnu sem hefur átt sér stað í þinginu sem varðar lýðræðið og vinnubrögð þingsins o.s.frv. í kjölfar rannsóknarskýrslu Alþingis. Að þingmaður skuli ræða með þeim hætti um verkefni sem eru á hendi stjórnvalda sem setja fram frumvörp og þingið vinnur síðan úr. Að ræða um tilraun til íhlutunar þegar við látum þingræðið hafa sinn gang vekur mann til umhugsunar.

Meginástæðan fyrir því að ég kem upp er að þingmaðurinn talar um ankannalega aðkomu þeirrar sem hér stendur þegar hún fer að ákvörðun þingsins um náttúruverndaráætlun sem fjallar um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum fer að náttúruverndaráætlun sem er síðan með tilvísun í náttúruverndarlög og þau lög eru í gildi, þingmanninum til upplýsingar. Náttúruverndarlög eru í gildi, náttúruverndaráætlun og ákvarðanir sem þar eru teknar eru í gildi þrátt fyrir að rammaáætlun sé enn þá í ferli í þinginu. Það er ekki svo að hér þurfi allt að fara á bið vegna þess að rammaáætlun hafi ekki verið unnin. Það gildir líka um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum enda verður þeirri vinnu haldið áfram.