139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ágæta og stutta ræðu. Það skiptir líka máli að geta komið viðhorfum sínum fram í stuttu máli.

Ég staldra eins og hann við 7. gr. en kannski af annarri ástæðu. Ég tel að hún sé grundvallarmál. Vissulega er skipulagsvaldið hjá sveitarstjórnunum og við erum sammála um að svo eigi að vera. Ég held hins vegar að þegar þessu var breytt fyrir nokkru, þegar hert var á því fyrir nokkru skulum við segja, hafi þeim verið fengið fullmikið vald og meira vald en þær kannski vildu og vilja. Ég sé satt að segja ekki hvernig hugsunin á bak við rammaáætlunina, sem mér heyrist hv. þingmaður vera sammála og mjög margir í salnum, á að komast í framkvæmd nema það sé þannig að áætlunin sjálf, sú sem er kölluð verndar- og nýtingaráætlun, hafi tiltekið gildi. Hún verður þá að hafa það gildi gagnvart skipulagi sveitarfélaganna.

Á hinn bóginn hafa semjendur frumvarpsins, ráðherrarnir, því að þeir komu auðvitað báðir að þessu og reyndar fleiri en þeir sem hér sitja, haft skilning á vanda sveitarstjórnarinnar við þetta. Þeir bera virðingu fyrir þessari hefð um skipulagsvald sveitarstjórnanna því að það eru tveir fyrirvarar, sveitarstjórnirnar fá fjögur ár til umþóttunar til að koma þessu í verk sem þarna er gert og ef sveitarstjórnirnar eru andstæðar eða hikandi gagnvart þeim ákvörðunum sem leiðir af áætluninni hafa þær tíu ár til að sjá hvernig málin þróast þannig að ég sé ekki betur en að nokkuð góður frestur sé veittur.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig getur hann hugsað sér þetta öðruvísi? Hvernig er hægt að hugsa sér þessa rammaáætlun og þetta verk í kringum hana án þess (Forseti hringir.) að það skerði að einhverju leyti skipulagsvald sveitarstjórnanna?