139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er grundvallarmál. Það er grundvallarmál hvernig við skilgreinum þessa áætlun. Áætlun — hv. þingmaður er miklu betri í íslensku en ég en ég hefði talið að áætlun væri nokkuð sem menn ætluðu sér í framtíðinni en væri kannski ekki óumbreytanlegt. Ég túlka þetta svo, eins og ég skil þennan texta í dag, að sú áætlun sem við erum að setja fram verði plagg sem verði ekki hróflað við í þau fjögur ár sem hún gildir en það þarf alltaf að endurnýja það á fjögurra ára fresti ef ég skil þetta rétt og á meðan hafa sveitarstjórnir væntanlega ekki neitt um það að segja. Ég hefði kosið að þetta væri áætlun, að þetta væri markmiðssetning sem við setjum fram og yfirlýsing ríkisstjórnar og ríkisvalds um það á hverjum tíma hvernig viðkomandi sér þessa áætlun eða sér nýtingu eða þá friðun og vernd á þeim svæðum sem um ræðir í framtíðinni.

Það er hins vegar alveg ljóst að það er einhver munur á því að nýta og vernda eins og við ræddum frammi, við hv. þingmaður. Þegar maður er búinn að nýta verndar maður ekki eftir á eða a.m.k. mjög illa og með einhverjum tilkostnaði eins og ég skil það. En mér finnst að við eigum ekki að taka frá sveitarstjórnunum það ákvörðunarvald sem þær hafa í dag. Þær hafa skipulagsvald um leið varðandi þetta. Ég held að ríkisvaldið og sveitarfélögin ættu þá að koma að því að gera slíka áætlun sem við erum að tala um, verndar- og nýtingaráætlun, og koma sér saman um að þetta sé stefna. Síðan geta verið leiðir til að fara frá því ef þörf krefur, ef menn geta fært rök fyrir því. En ég veit að þá er skrefið kannski ekki stigið nógu langt (Forseti hringir.) varðandi verndina, ég skil það.