139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Eitt af því nýja sem þetta verklag, þetta frumvarp ef að lögum verður, og sú rammaáætlun sem því fylgir gerir öðruvísi en forverar þess, þ.e. sem kallað hefur verið fyrri áfanginn eða fyrsta skýrslan um rammaáætlun, er einmitt þetta, hún hefur gildi, hún er til einhvers. Rammaáætlun 1 er bara almenn umfjöllun, ágæt á margan hátt. Alveg ný vinnubrögð voru lögð í hana sem margir hafa hrósað og við hv. þingmaður vorum einmitt að tala frammi um að hefði verið jákvætt á sínum tíma. En svo var ekkert meira.

Iðnaðarráðherrann sem þá var, á margan hátt hinn ágæti þingmaður Valgerður Sverrisdóttir, sagði um þetta þegar hún var spurð hvaða gildi það hefði að það væri rétt að fyrirtækin og sveitarstjórnirnar hefðu þetta á borðinu hjá sér og litu á það. Þau þurftu sem sagt ekkert að gera með það. Sveitarstjórnin þurfti ekkert að gera með það, álfyrirtækið þurfti ekkert að gera með það, orkufyrirtækin þurftu ekkert að gera með það og þetta var raunverulega ekki til neins. Það er grundvallarmál í þessu frumvarpi og í þeim áformum sem þessi ríkisstjórn hefur um málið og síðasta ríkisstjórn hafði um málið, þ.e. að breyta þessu. Þegar búið verður að taka hina lýðræðislegu ákvörðun sem ríkisvaldið gerir ekki, ekki ríkisstjórnin heldur Alþingi Íslendinga í opinni umræðu sem vonandi hljómar um allt land og við fáum sem sé skerf til frá almenningi og úr umræðunum hér, hefur sú ákvörðun ákveðið gildi. Ekki síst hefur hún það gildi að sveitarstjórnunum er óheimilt að skipuleggja virkjun þar sem Alþingi hefur sett friðun og þeim er líka óheimilt að skipuleggja framkvæmdir á friðlandi þar sem Alþingi hefur opnað fyrir virkjun. Þetta held ég að sé grundvallarmál, ég held að við komumst ekki fram hjá því.