139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

43. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, nánar tiltekið um breytingu á 53. gr. þingskapalaga.

Frumvarpið mundi gera það kleift, yrði það samþykkt, að ráðherrar sem sæti eiga á Alþingi og eru alþingismenn gætu sagt af sér þingmennsku og komið aftur til þings ef þeir af einhverjum ástæðum létu af ráðherradómi á kjörtímabilinu, þetta er í stuttu máli inntak frumvarpsins. Það eru rétt tíu dagar eða svo frá því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir mælti fyrir tillögu um breytingu á stjórnarskránni, um það að þrískipting valdsins yrði staðfest í stjórnarskránni með því að þar yrði þess getið að ráðherrar gætu ekki jafnframt setið á Alþingi sem alþingismenn; þeir ættu náttúrlega sæti sem ráðherrar og flyttu frumvörp og tækju þar þátt í umræðum sem snerta þeirra málaflokka en hefðu ekki atkvæðisrétt og gegndu ekki starfi þingmanns.

Í þeirri umræðu fórum við í gegnum það að það sé gott og væri til heilla að hafa skýrari aðgreiningu á milli þessara tveggja valdþátta, löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Við, flutningsmenn þessa frumvarps, teljum að það mundi leiða til betri starfshátta bæði hjá framkvæmdarvaldinu og hjá Alþingi ef fjarlægðin á milli þessara tveggja þátta væri meiri.

Nú er það hins vegar svo að það tekur tíma að breyta stjórnarskránni eins og við öll vitum. Þingið þarf að samþykkja breytinguna, það þurfa að vera kosningar og annað þing þarf að samþykkja breytinguna til að breyting á stjórnarskrá geti orðið, þannig að þetta tæki allt langan tíma. Eins og lögin eru í dag getur þingmaður sem verður ráðherra ekki sagt af sér þingmennsku og komið aftur inn á kjörtímabilinu. Það er því eðlilegt, finnst mér, vegna þess að öll erum við mannleg, að enginn ráðherra hafi látið af því verða jafnvel þó að hann eða hún sé í hjarta sínu á því að þessi störf fari kannski ekki alveg saman. Þess vegna er þetta frumvarp flutt til að gera ráðherrum þetta kleift. Það er hins vegar líka ljóst af þessu frumvarpi að það yrði þá valkvætt, ráðherra þyrfti sjálfur að skrifa forseta Alþingis bréf þar sem hann eða hún segði af sér. Eðli máls samkvæmt finnst mér alla vega ekki hægt að skylda fólk til að gegna ekki ráðherraembætti og þingmennsku um leið, það er ekki hægt með einfaldri löggjöf að skylda fólk til þess. Hins vegar er náttúrlega hægt að kveða á um það í stjórnarskránni og þess vegna gengur tillaga hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur út á það að þetta verði klárt og kvitt og engin spurning þar um.

Þetta er í annað skiptið sem frumvarpið er flutt. Við erum 16 þingmenn sem flytjum þetta frumvarp núna og fluttum það líka í vor. Það vakti ekki meiri athygli en svo að meira að segja unga fólkið í mínum flokki, Samfylkingu, hafði ekki orðið vart við að það hefði verið flutt og hvatti ráðherra í okkar flokki til að segja af sér þingmennsku á fundi sem við héldum í sumar. En ég kenni nú engu þar um nema lélegri auglýsingamennsku minni. En við erum sem sagt 16 þingmenn sem flytjum þetta frumvarp og ég bið um að því verði vísað til allsherjarnefndar.