139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[18:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Til umræðu er þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna, eða samstarfsyfirlýsingu eins og það heitir, að leita skuli leiða til að koma málefnum sjávarútvegs í einhvern sáttafarveg og leita víðtæks samráðs um að leysa þau deilumál sem hafa verið uppi í þeirri grein.

Sú vinna hefur staðið yfir eða stóð yfir í rétt liðlega eitt ár og lauk nú í sumar. Víðtækt samráð var meðal allra hagsmunaaðila í greininni, þ.e. sjómanna, útgerðarmanna, smábátaeigenda, fiskverkafólks, stjórnmálaflokka á þingi o.s.frv. Þessi hópur skilaði síðan áliti í lok sumars í viðamikilli skýrslu sem heitir Skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Hópurinn var skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í júlí 2009 og ég vitna beint í skýrsluna, með leyfi forseta:

„Starfshópurinn var skipaður með erindisbréfi og vísan í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en þar er ítarlegur kafli um fiskveiðar, sem skiptist í kafla um þjóðareign og mannréttindi, brýnar aðgerðir, vistvænar veiðar — rannsóknir o.fl. og endurskoðun laga um fiskveiðar. […]

Í bréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dags. 4. júní 2009, þar sem hann gaf tilteknum aðilum kost á að tilnefna fulltrúa í starfshópinn, segir um verkefni hópsins: „Gert er ráð fyrir að vinna starfshópsins felist í að skilgreina álitaefni, sem fyrir hendi eru í fiskveiðistjórninni og lýsa þeim. Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni séu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, en jafnframt að sátt náist um stjórn fiskveiða. Starfshópnum er gert að hafa sem víðtækast samráð við aðra aðila, t.d. með viðtölum, viðtöku álitsgerða og á veraldarvefnum. Honum er gert að skila af sér álitsgerð fyrir 1. nóvember nk. Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta [sem] hann bendir á, mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.““

Við allt þetta var staðið nema dagsetninguna, ekki tókst að skila skýrslunni fyrir 1. nóvember 2009 eins og ætlunin var heldur dróst sú vinna af ýmsum ástæðum sem óþarfi er að fara út í hér. En markmiðin voru skýr og í anda samstarfsyfirlýsingar þessara tveggja flokka, þ.e. að reyna að ná sátt um deilumál í sjávarútvegi, skilgreina þau álitaefni sem uppi hafa verið og gera tillögu til lausnar á þeim til úrbóta fyrir framtíðarskipan þessa málaflokks.

Eins og ég sagði eru í skýrslunni, sem skilað hefur verið, gerðar tillögur um öll álitaefni sem uppi hafa verið og allir þeir aðilar sem komu að borðinu skiluðu inn til nefndarinnar. Í flestum tilfellum voru menn sammála um þær leiðir og þær tillögur sem gerðar voru eins og kemur fram í helstu niðurstöðum hópsins. Reyndar held ég að það hafi ekki verið nema í einu eða tveimur atriðum, og þá veigalitlum, sem ekki var yfirgnæfandi meiri hluti á bak við þær tillögur sem gerðar voru um helstu álita- og ágreiningsefnin.

Hópurinn kallaði eftir gögnum víða að úr samfélaginu, úr háskólasamfélaginu, úr greininni sjálfri, frá bönkum, viðskiptabönkum sjávarútvegsfyrirtækja o.s.frv., til að gefa vinnunni það gildi sem henni var ætlað og til að færa góð rök fyrir máli sínu. Þessum gögnum hefur nú verið skilað. Í samræmi við erindisbréf ráðherra og það bréf sem fylgdi hópnum, það erindi sem ráðherra fylgdi sjálfur á fyrsta fundi hópsins, ætlast hópurinn til að farið sé eftir þeim tilmælum sem hann leggur fram fyrir ráðherra, enda segir í bréfi ráðherrans, með leyfi forseta:

„Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.“

Á grundvelli þessarar vinnu ætlar ráðherra að leggja grunn að annarri tilhögun við stjórn fiskveiða. Ég held að ráðherra hafi ekki í hyggju að ganga á bak orða sinna hvað það varðar, enda var það markmið stjórnarflokkanna að leita sameiginlegra leiða allra aðila í sjávarútvegi ef það væri á annað borð mögulegt fyrir ráðherrann til að byggja endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða á.

Eins og ég sagði áðan varð víðtæk sátt um þær tillögur sem er að finna í þessari viðamiklu skýrslu. Ég held ég geti fullyrt að allir utan tveggja aðila sem skipuðu þennan hóp hafi verið sammála heildarniðurstöðum starfshópsins.

Bent hefur verið á eða komið hefur fram í umræðunni, m.a. á þingi, að ekki hafi verið gætt hagsmuna almennings eða þjóðarinnar í þessari vinnu. Þykir mér það vera fulldjarft ályktað ef við lítum til þeirra aðila sem þarna sátu og fyrir hönd hverra þeir tóku þátt í þessu starfi, fyrir utan að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi sátu í þessum hóp og einhverja hafa þeir á bak við sig. Þá sátu þarna fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þarna sátu fulltrúar allra stéttarfélaga sjómanna — yfirmanna, vélstjóra, undirmanna. Þarna sátu fulltrúar Landssambands smábátaeigenda. Þarna sat fulltrúi fyrir hönd starfsgreinasambandsins innan ASÍ. Þarna sat fulltrúi Samtaka eigenda sjávarjarða. Þarna sat fulltrúi Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þarna sátu fulltrúar Samtaka fiskframleiðenda o.s.frv. Ég vil meina að þessir aðilar hafi komið fram fyrir hönd umbjóðenda sinna og lagt mat á þær tillögur sem fram komu og þau gögn sem við fengum í hendurnar, því að víða var kallað eftir gögnum, með hagsmuni umbjóðenda sinna í huga, fólksins í landinu — almennings sem er á skipunum, sem vinnur í fiskvinnslustöðvunum, sem býr í sveitarfélögunum, sem styður stjórnmálaflokkana. Niðurstaðan bendir til þess að víðtæk samstaða hafi verið um þær meðal þessara aðila og þar með umbjóðendum þeirra úti í samfélaginu.

Þeir sem skiluðu inn gögnum í þessa vinnu voru m.a. Háskólinn á Akureyri, þ.e. rannsóknardeild Háskólans á Akureyri, sem skilaði inn viðamiklum gögnum, sama gerðu aðilar úr Háskólanum í Reykjavík, Davíð Már Kristófersson, Jón Steinsson hagfræðingur skilaði inn umsögn og fleiri slíkir, auk þeirra gagna sem viðskiptabankar sjávarútvegsfyrirtækjanna lögðu inn til okkar til að gera mögulegt að ná utan um allt það sem fram fór.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að byggja áfram á þeirri skýrslu sem hér var lögð fram, eins og ráðherra óskaði eftir og ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir óskuðu eftir að yrði gerð og lögð fram. Mér fyndist ég vera að ganga á bak orða minna ef ég ætlaði að bakka út úr þeirri vinnu sem við skiluðum af okkur á þeim forsendum sem ég fór í þetta starf, ásamt öllum þeim aðilum sem þar voru, og legði til að þessu yrði öllu kastað fyrir róða og við skyldum gera eitthvað annað en til var ætlast í upphafi. Það væri ekki að mínu viti drengileg framkoma gagnvart þeim sem tóku þátt í starfi okkar, bæði á Alþingi og úti í samfélaginu. Ég legg því til að við byggjum framtíðarskipan stjórnar fiskveiða á þeim tillögum, hugmyndum og þeim ábendingum um ágreiningsefni og álitaefni (Forseti hringir.) sem lögð hafa verið fram í þessari skýrslu.