139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:07]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það gætir ákveðins misskilnings í málflutningi hv. þingmanns um þær leiðir sem eru lagðar til í skýrslunni. Það voru ekki lagðar fram tvær leiðir, í starfshópnum var ekki rætt um tvær leiðir. Sú leið sem starfshópurinn mælir með og hefur verið kölluð samningaleiðin var sú leið sem þróaðist í umræðu í hópnum alveg frá síðustu áramótum og fram undir sumar og endaði í þeim farvegi sem sjá má í skýrslunni. Það var sú leið sem hópurinn þróaði með sér í vinnunni og fól tveim aðilum síðan undir lokin að útfæra nánar, þ.e. hvort það væri mögulegt og hvaða leiðir væri best að fara með hana.

Hin leiðin sem hefur verið kölluð tilboðsleið var aldrei rædd í þessum hópi. Hún var lögð inn af tveim utanaðkomandi aðilum, lögð inn sem skýrsla í hópinn. Hún var aldrei rædd þar, þróaðist aldrei þar í umræðu og var aldrei tekið undir hana. Þess vegna var hópurinn ekki að velja milli tveggja leiða, heldur þróaðist umræðan um þá leið sem niðurstaða varð um og tók alllangan tíma að gera.

Sáttin er ekki við LÍÚ frekar en Landssamband smábátaeigenda eða aðra aðila eins og þarna hefur komið fram. Vissulega eru hagsmunir Landssambands íslenskra útvegsmanna, og hafa verið í gegnum árin, mjög miklir í því kerfi sem við höfum búið við í sjávarútvegi en því er verið að breyta. Það er ekki verið að festa í sessi það kerfi sem fyrir hefur verið. Það er verið að gjörbreyta því. Það er verið að gjörbreyta því kerfi sem fyrir hefur verið í sjávarútveginum og á það féllust allir aðilar í hópnum og við það verða þeir að sætta sig sem hafa fjárhagslegra (Forseti hringir.) hagsmuna að gæta og hafa varið gamla kerfið fram í rauðan dauðann síðustu tvo áratugina.