139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir það sem hv. þingflokksformaður Vinstri grænna, Árni Þór Sigurðsson, nefndi, það er að mínu viti augljóst að þetta mál á að fara til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þar sem það varðar fiskveiðistjórnarkerfið og tillögu um að leggja einhverjar, sem enginn veit reyndar enn þá hverjar eru, tillögur eða breytingar á því undir þjóðaratkvæði. Ég held að það sé alveg einsýnt.

Að mínu viti er þessi tillaga meingölluð og algjörlega vanhugsuð því að það eru ekki neinar leiðbeiningar eða neinar hugmyndir um hvað á að greiða atkvæði um eða tala um í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu heldur að greiða atkvæði um fiskveiðistjórnarkerfið. Um hvaða kerfi eða hvaða hugmyndir á að greiða atkvæði er ekkert fjallað eða einu sinni gefið í skyn hvað eigi að tala um. Það er líka mjög sorglegt í sjálfu sér eftir þá miklu vinnu sem var lögð í endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og um náðist mjög breið sátt af þeim sem unnu það starf, fulltrúum langflestra hópa í samfélaginu. Það má hugsanlega finna einhverja hópa sem ekki áttu þar fulltrúa, t.d. Lions-félög, en flestir áttu þar fulltrúa, verkalýðsfélög og fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga og aðrir eins og hefur komið hér fram.

Tillögur nefndarinnar eru gjörbreyting á því umhverfi sem áður hefur verið. Nefndin leggur henni til frekari vinnu eins og hér hefur komið fram og vísar því til ráðherra í rauninni. En meginlínurnar eru lagðar. Þær eiga að snúast um það sem mér finnst í rauninni mestu skipta, það er lagt til að orðið „þjóðareign“ verði bundið í stjórnarskrá, það á reyndar eftir að skilgreina það orð í sjálfu sér, þjóðareign á auðlindinni. Það er kveðið upp úr með það. Menn hafa deilt um það lengi hvort það sé skýrt eða ekki skýrt, nú er bara kveðið upp úr með það í tillögu nefndarinnar, þ.e. að það verði skýrt í stjórnarskrá.

Það er líka lagt til að það verði samið um nýtingarrétt. Þá erum við um leið í rauninni að gefa frat ef ég má orða það svo í það sem menn hafa talið eignarrétt hingað til. Þar er talað um nýtingarrétt. Við leggjum til að fyrir það verði greitt gjald sem renni til þjóðarinnar. Þetta er gjörbreyting á þeirri hugsun sem verið hefur um sjávarútveginn.

Ég verð því að segja að það er því miður eins og sumir stjórnmálamenn sætti sig í rauninni ekki við að þær tillögur sem þeir fóru með í kosningabaráttuna, um að fara svokallaða fyrningarleið, hafi ekki reynst tækar. Það sætta þeir sig ekki við og vilja þar af leiðandi reyna allt sem hægt er til að koma fyrningarleiðinni í framkvæmd þrátt fyrir að búið sé að benda á að sú leið muni væntanlega hafa í för með sér gríðarlegt tjón fyrir sjávarútveginn og í framhaldinu þjóðarbúið.

Það sem mér finnst alveg skelfilegt við þessa tillögu er að það er enn og aftur verið að auka á óvissu um framtíð þessarar einnar mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar. Þeir sem standa í þessu í dag, þeir sem eru að draga björg í bú fyrir þjóðina og skapa útflutningstekjur, geta enn þá ekki horft á bátinn sinn eða starfsfólkið sitt í fiskvinnslunni og sagt: Ja, það eru komnar línur í þetta sem við erum ekkert alveg sátt við en við munum starfa eftir. Nei, þá koma hér nokkrir þingmenn og leggja fram afar óljósa og undarlega tillögu um að eitthvað skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ekkert nánar skilgreint.

Ég vona að þingmenn geri sér grein fyrir því að ef menn komast niður á eitthvert orðalag á tillöguna þarf að fara fram gríðarleg kynning á sjávarútveginum, sjávarútvegskerfinu í rauninni, út á hvað það gengur og hvernig það virkar. Við hljótum líka að spyrja okkur hvort þau verðmæti sem eru í þessari grein úti um allt land, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem langstærsti hlutur verðmætanna verður til, eigi að enda í höfuðborginni. Það er búið að sýna fram á að verðmætin í þessari grein verða til úti á landi en meginhlutanum er síðan eytt hér í höfuðborginni. Við hljótum að spyrja okkur hvort það sé þá — nú rekur hv. þingmaður upp stór augu en ég skal finna þessa útreikninga fyrir hv. þingmann. Það gengur ekki að þegar nokkuð góð sátt er komin um hvaða leið eigi að fara eigi að rugga bátnum á ný. Auðvitað verða ekki allir sáttir við þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvað kemur út úr henni heldur, það er heldur engin leið til að skapa sátt.

Mig langar að spyrja hv. þingmenn sem hér eru og eru á þessari tillögu, af því að ég veit að hv. þingmenn ætla að koma í andsvar við mig: Hvað með þjóðaratkvæðagreiðslu um stefnu í heilbrigðismálum? Ríkisstjórn þessara hv. þingmanna kynnir núna gjörbreytingu á heilbrigðisstefnunni í gegnum fjárlagafrumvarpið. Ekki hafði fólkið úti á landi neitt um það að segja hvernig sú breyting var sett fram. Henni er bara kastað fram og það er verið að skerða lífskjör úti á landi. Eigum við að greiða þjóðaratkvæði um stefnu í heilbrigðismálum? Við skulum þá ræða það og koma okkur niður á einhverja tillögu úr því. Hvað með Evrópusambandið? Af hverju greiðum við ekki tillögu um það hvort við hefðum átt að fara í þessar viðræður við Evrópusambandið eða halda þeim áfram? Það er væntanlega, eða getur, við skulum taka varlega til orða, sú ákvörðun sem að baki því liggur getur haft miklu varanlegri og alvarlegri áhrif á íslenskan efnahag heldur en nokkurn tímann sjávarútvegurinn, og þá á sjávarútveginn. Eru hv. þingmenn til í að styðja það og samþykkja að fara með í þjóðaratkvæði hvort halda eigi áfram þessum viðræðum við Evrópusambandið?

Við hljótum að velta upp þessum spurningum ef hægt er að fara með þetta í þjóðaratkvæði, ekki síst þegar málin eru svona stór eins og Evrópusambandsmálið allt saman.

Svo verð ég líka að segja það, frú forseti, að það er alveg með ólíkindum hvað sumir þingmenn geta verið með þessi samtök, LÍÚ, á heilanum. Það er eins og LÍÚ sé upphaf og endir alls á Íslandi. Þetta eru hagsmunasamtök, ekkert mjög stórs hóps, en jú, stórs hóps sem heldur á miklum aflaheimildum, en þar eru svo margir aðrir sem væru fylgjandi því að fara þá leið sem nefnd er í tillögu nefndarinnar. Það er algjör misskilningur að halda því fram að allir sem voru í nefndinni séu sáttir við þá tillögu sem við lögðum fram. Það gáfu flestir eitthvað eftir. Það voru helst fulltrúar stjórnmálasamtakanna sem héldu ekki fram einhverjum ákveðnum stefnum eða hagsmunum. Allir urðu að gefa eitthvað eftir. Þetta er sáttaleið allra þeirra aðila, eða langflestra, sem þarna voru og það er ekkert óeðlilegt við það þó að einn eða tveir séu með aðra skoðun á þessu eða vilji fara aðrar leiðir. Það er hins vegar sorglegt, finnst mér, að lítill hópur þingmanna skuli taka sig út úr og ætli sér að halda við þeirri óvissu sem hefur verið um sjávarútveginn og þá framtíð sem hann á í þessu landi.

Ég veit til þess að aðilar sem starfa til hliðar við sjávarútveginn, veita honum þjónustu í tæknigreinum og víðar, hafa jafnvel sagt að í hruninu hafi ástandið verið mjög slæmt því að þá vissu menn lítið hvað framtíðin bæri í skauti sér en að óvissan núna sé enn þá verri því að við, stjórnmálamennirnir, sem erum að tala um og eigum að móta stefnu í sjávarútveginum virðumst alltaf hafa einhvern veginn tök á því að skapa meiri óvissu. Þessu verður að linna því að við verðum að geta komist áfram með þessa grein, þróað hana þannig að fólk haldi áfram að starfa í henni. Þúsundir einstaklinga úti um allt land vinna við greinina og það gengur ekki að vera með þessa óvissu endalaust.