139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er ég algerlega ósammála hv. þingmanni um að niðurstaða úr skýrslunni sé eitthvað óljós. Þar eru taldar upp, að mig minnir, á einni og hálfri eða tveimur blaðsíðum niðurstöður nefndarinnar og því beint til sjávarútvegsráðherra hvað eigi að gera. Það er lagt til á hverju eigi að byggja, það er m.a. lagt til að áfram verði byggt á því aflamarkskerfi sem við höfum. Það er lagt til að samningaleiðin verði farin, það er lagt til að farið verði í samninga, það er lagt til að sett verði af stað vinna til að skýra í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindinni. Það er ýmislegt að byggja á.

En 20 ára deilur um kvótakerfið eins og hv. þingmaður orðaði það, kvótakerfið eða fiskveiðistjórnarkerfið hefur breyst töluvert og þeir sem voru í því fyrir 20 árum eru margir hverjir farnir út úr því með mikla fjármuni, illu heilli, ég tek undir það ef það er sú gagnrýni sem hv. þingmaður er að tala um. En inn í greinina hafa aðrir komið sem hafa fjárfest og byggt hana upp, hafa skuldsett sig og fjölskyldur sínar, sín fyrirtæki, lagt heimilin að veði. Þetta er sú óvissa sem hv. þingmaður er að skapa með tillögum sem þessari, algerlega órökstuddri. Það er mjög sérstakt að leggja fram tillögu, ef ég skil þetta rétt, þar sem hv. þingmenn hafa ekki hugmynd um hvernig spurningar eigi að leggja fyrir þjóðina heldur ætla ríkisstjórninni að semja þær fyrir sig.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hún sammála því að sú tillaga sem nú liggur fyrir um að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um það hvort áfram verði haldið viðræðum við Evrópusambandið nái fram að ganga? Ég geri mér alveg grein fyrir því að stjórnarflokkarnir segja að endanlegur samningur fari fyrir þjóðina en nú er komin fram tillaga um að þjóðin fái að segja álit sitt á framhaldinu, hvort eigi að halda áfram, er þingmaðurinn sammála því? Eins vil ég segja að það er fólk (Forseti hringir.) úti á landi, á landsbyggðinni fyrst og fremst, sem er að vinna í sjávarútvegi í dag.