139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:24]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samningaleiðin eins og hún er kynnt í skýrslu viðræðunefndarinnar er afar óljós leið. Hún er ekkert sérlega skýr í framsetningu. Og samstaðan sem hv. þingmaður vísar til var ekki svo ýkjamikil um þá leið, hún var ekki algjör. Auðvitað má byggja á þeim hugmyndum sem settar eru fram í samningsleiðinni og það er sjálfsagt að skoða þessa leið. Mér finnst líka jafnsjálfsagt að skoða tilboðsleiðina og það kemur mér satt að segja verulega á óvart að það skuli upplýst hér að sú leið hafi aldrei verið rædd í viðræðunefndinni, að nefndin skuli leggja fram og kynna með skýrslu tillögu sem aldrei hefur fengið umræðu í nefndinni og efnislega umfjöllun. Hvernig á þá að meta skoðanir nefndarmanna á þeim möguleika sem varpað er upp gagnvart tilboðsleiðinni? Það á bara að skoða báðar þessar leiðir mjög vel.

Markmiðið er það að ná einhverju öryggi varðandi framtíðarskipan fiskveiðistjórnarinnar. Sjávarútvegurinn sem grein á skilið að búa við rekstraröryggi. Og það stunda fleiri sjávarútveg í landinu en kvótahafarnir. Stór hluti þeirra sem stunda sjávarútveg eru leiguliðar hjá kvótahöfunum. Er það kerfi sem við viljum festa í sessi? Við lögðum niður leiguliðakerfi bændasamfélagsins fyrir meira en 100 árum síðan. Okkur þótti það ekki eðlilegt. Okkur þykir það ekki eðlilegt í dag. Viljum við viðhalda svona lénsherrakerfi í sjávarútveginum?

Við vitum að það eru gríðarmargir sem eiga hagsmuna að gæta að þetta kerfi verði opnað, að það verði festar í sessi réttlátar og sanngjarnar reglur og það er að því sem þessi vinna miðar, að það sé rúm og sanngjörn aðlögun sem mér sýnist vera í kortunum núna varðandi þær tillögur sem fram hafa komið og að leiðin sé hófsöm. (Forseti hringir.) Allt þetta virðist mér vera á góðri leið og síðan að vinnunni lokinni er eðlilegt að þjóðin fái að segja af eða á.