139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að samstaðan í nefndinni var ekki algjör. Af þessum rúmlega 20 manna hóp voru einn eða tveir sem voru á annarri skoðun. Þetta minnir mig svolítið á það að við erum með ríkisstjórn sem virðist ekki vera mikil samstaða í. Ég hef efasemdir um að það sé þingmeirihluti fyrir því fjárlagafrumvarpi sem ríkisstjórnin lagði fram og hvað eigum við þá að gera? Eigum við að segja að ríkisstjórnin eigi að fara frá, það sé ekkert mark á henni takandi? Eru það ekki bara svipuð skilaboð og að segja að þessi nefnd hafi klúðrað málunum, eins og ég skil hv. þingmann vera að segja? (Gripið fram í.)

Þessi svokallaða tilboðsleið sem hv. þingmaður nefndi var kynnt fyrir nefndinni. Annar þeirra aðila sem skrifaði þessa leið kom og kynnti hana fyrir nefndinni á fundi. Niðurstaða okkar eftir þá kynningu var að sú leið væri ekki til þess fallin að skapa þá sátt eða leysa það vandamál sem við áttum að fást við heldur leggjum við til aðra leið.

Hv. þingmaður svaraði hins vegar ekki spurningu minni varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið og við munum þá bara eiga það inni í síðari umræðu um þetta mál. En mestu skiptir í þessu og ég er sammála hv. þingmanni um það að það þarf að ná öryggi og framtíðarsýn fyrir sjávarútveginn. Ég held að við gerum það ekki með því að koma með sífellt nýja vinkla af því að einhver ákveðinn hópur þingmanna er ósáttur við þá niðurstöðu sem kom út úr þessu mikla nefndarstarfi. Svo set ég náttúrlega spurningarmerki við það þegar við þingmenn stöndum hér og tölum fyrir hönd þjóðarinnar, þegar við erum jafnvel að tala um nefndarvinnu þar sem fulltrúar langstærsta hluta þjóðarinnar voru í, við hljótum þá að vera sammála um að skapa ró um greinina. En af hverju látum við ekki á það reyna hvort hægt (Forseti hringir.) er að byggja á þeirri vinnu sem við fórum fram með og náðum þokkalegri sátt um? Af hverju látum við ekki á það reyna áður en við komum fram með svona vitleysu?