139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rak upp stór augu áðan því það er fullt af fólk í Reykjavík sem vinnur við fiskvinnslu. (Gripið fram í: Stærsta verstöð landsins.) Þar er stærsta verstöð landsins og meira að segja í mínu kjördæmi, Reykjavík norður.

Hv. þingmanni er gjarnt að tala um allt annað en það sem við erum að tala um. Hann talaði um fjárlagafrumvarpið. Hann talaði um þjóðaratkvæðagreiðslu þetta og þjóðaratkvæðagreiðslu hitt. Ég er á því að greiða eigi þjóðaratkvæði um aðildarsamning að Evrópusambandinu þegar hann liggur fyrir. Við leggjum til að greidd verði atkvæði um fiskveiðistjórnarlög þegar þau liggja fyrir. Við erum ekki að leggja til að það verði greidd atkvæði um það hvort eigi að semja frumvarp um stjórn fiskveiða. Ég er á móti því að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort við eigum að halda áfram samningaviðræðum við Evrópusambandið. Þar erum við komin vel á veg og eigum að halda áfram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að þessu vegna þess að við höfum verið uppfrædd um það að hin svokallaða tilboðsleið hafi aldrei verið rædd, hún hafi verið kynnt og fólk hafi séð „kviss bang“ að hún væri ómöguleg. Nefndin leggur klárlega til samningaleiðina og þá vil ég spyrja þingmanninn: Telur hann að leiðin uppfylli og komi til móts við álitið sem við fengum frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna 24. október 2007?