139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

Bankasýslan.

[10:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin setti á laggirnar ríkisstofnun sem heitir Bankasýsla ríkisins sem átti að sjá um eignarhlutinn í þrem stórum viðskiptabönkum þegar til stóð að ríkið tæki þá yfir. Niðurstaðan er sú að hún fer nær eingöngu með eignarhlutinn í Landsbankanum og kostar skattgreiðendur 100 millj. kr. á ári. Í markmiðslýsingu um Bankasýsluna segir, með leyfi forseta:

„Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma …“

Þar segir líka að tryggja beri gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og að tryggja eigi virka upplýsingamiðlun til almennings.

Sömuleiðis liggur það fyrir að Bankasýslan á að hafa eftirlit með eigendastefnu, eins og áður segir. Í eigendastefnu segir, virðulegi forseti:

„Fjármálafyrirtæki skulu koma sér upp innri verkferlum um lykilþætti í starfsemi sinni, svo sem endurskipulagningu skuldsettra fyrirtækja, úrlausn skuldavanda einstaklinga, sölu eigna o.fl. Mikilvægt er að slíkir ferlar séu skilvirkir og gagnsæir og birtir á heimasíðum fyrirtækjanna.“

Nú liggur það fyrir að Landsbankinn seldi nokkur stór fyrirtæki í einni kippu til lífeyrissjóðanna. Af því tilefni sagði forstöðumaður Bankasýslunnar að á heildina litið væri sala Landsbankans á eignarhaldsfélaginu Vestia til lífeyrissjóðanna jákvæð þótt söluferlið hefði ekki verið gegnsætt. Málið horfði öðruvísi við því að lífeyrissjóður keypti það. Komið hefur fram á fundi viðskiptanefndar að Bankasýslan vélaði um það með bankanum.

Nú segir hvergi að brjóta megi allar reglur ef lífeyrissjóðir eigi í hlut. Þetta mál er á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra, Bankasýslan er á ábyrgð hans og spurningin er þessi: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í málinu?