139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

Bankasýslan.

[10:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er algerlega fullyrðing af hálfu hv. þingmanns án nokkurs rökstuðnings að þarna hafi verið farið á svig við lög og reglur. Það er einfaldlega … (GÞÞ: Forstöðumaður Bankasýslunnar sagði …) Hv. þingmaður getur verið ósáttur við hvernig svarað er fyrir einstaka hluti en það er ekki sönnun þess að þar hafi verið farið á svig við lög og reglur, (GÞÞ: En forstöðumaður Bankasýslunnar sagði það.) það er bara ekki þannig. Það hefur verið útskýrt bæði af hálfu Landsbankans og Bankasýslunnar í þeim sérstöku viðskiptum sem hv. þingmaður hefur svona mikið á hornum sér, þegar Landsbankinn og Framtakssjóður Íslands sameinuðust um eignarhald á stórum fyrirtækjum, er að hluta til falin sala af hálfu Landsbankans en er í raun sameining eignarhaldsins sem áður var alfarið á hendi Landsbankans við stækkaðan sjóð (Gripið fram í.) sem Framtakssjóður og Landsbankinn eiga saman.

Svo væri fróðlegt að heyra þá á móti hv. þingmann tjá sig aðeins um það: Telur hann það ekki mikilvægt viðfangsefni að skuldugum fyrirtækjum sem tímabundið hafa lent í höndum bankanna sé komið út í lífið? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Og er hann sáttur við að þau séu mánuðum eða árum saman í gjörgæslu hjá bönkum? (Forseti hringir.) Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef við ætlum að koma þessum fyrirtækjum aftur út í lífið þarf að gera það. Er það ekki, hv. þingmaður?