139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

afnám aflamarks í rækju.

[10:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrr í haust samþykkti Alþingi samhljóða þingsályktunartillögu um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá 2010 þar sem segir að mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk. Ég tel ástæðu til þess að árétta það áður en ég ber fram fyrirspurn mína til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afleiðingar ákvörðunar hans frá því í sumar um afnám aflamarks í rækju.

Ég ætla ekki að orðlengja neitt réttmæti þeirrar hugmyndar. Ég ætla heldur ekki að ræða sérstaklega um að hæstv. ráðherra er hér á mjög þunnum ís lagalega séð, þau mál verða væntanlega útkljáð fyrir dómstólum. Ég ætla hins vegar að ræða þessi mál út frá hagsmunum ríkissjóðs og hins opinbera.

Það blasti við að afleiðingarnar fyrir hið opinbera af því að afnema aflamark í rækju væru fjárhagslegar, það þarf ekki að orðlengja það mikið. Hæstv. iðnaðarráðherra upplýsti okkur í svari við fyrirspurn á mánudaginn að kostnaður fyrir Byggðastofnun af hinni vanhugsuðu ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eru 700 millj. kr. Stofnunin er ekki lengur í fjárhagslegum færum til útlána nema með sérstakri yfirlýsingu frá ríkinu vegna þess að hún er komin með eiginfjárhlutfall undir lögbundið lágmark. Þetta er kostnaðurinn.

Það kom líka fram að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði ekki rætt þessi mál, hvorki við iðnaðarráðuneytið né við Byggðastofnun áður en ákvörðunin var tekin. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra hafi ekki íhugað þessar afleiðingar ákvörðunar sinnar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig mat hann möguleg fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð út af þessari ákvörðun? Ég spyr enn fremur hæstv. ráðherra: Mun hann ekki finna til ábyrgðar sinnar og gera einhverjar ráðstafanir sem tryggja að Byggðastofnun komist upp fyrir sitt lögbundna lágmark og geti þar með (Forseti hringir.) stundað útlánastarfsemi sína með eðlilegum hætti?