139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

afnám aflamarks í rækju.

[10:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Eins og hv. þingmanni er kunnugt var aflaheimildum á undanförnum árum í rækju úthlutað samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar upp á 7 þúsund tonn. Einungis hluti af þeirri rækju var veiddur og veiðin fór býsna langt niður á sumum af þessum árum. Ég tel mikilvægast að þær aflaheimildir sem úthlutað er, hvort sem það er í rækju eða öðru sem á eftir að veiða, séu nýttar. Það hefur ekki verið svo á undanförnum árum og þá, eins og kveðið er á um í fiskveiðstjórnarlögunum, ber að nýta aflaheimildir sem úthlutað er þannig að þjóðinni sé skapaður sem mestur arður af. Við þær aðstæður sem ríkja er líka heimilt að taka þær út úr kvóta og það er svo sem gert, nú til eins árs, enda gildir sú ákvörðun bara fyrir það ár. Ég vona að það verði hvatning til þess að rækjuveiðar verði nýttar eins og gert er ráð fyrir og kostur er.

Varðandi stöðu Byggðastofnunar er það allt annað mál. Það er óviðkomandi þessu hvort Byggðastofnun tekur veð í óveiddri rækju. Það er þeirra mál, það er ekki sjávarútvegsráðuneytisins að fjalla um það.