139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

afnám aflamarks í rækju.

[10:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hóf mál mitt áðan með því að vitna í þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti samhljóða. Ég gerði það ekki að tilefnislausu en tilefnið dugði hins vegar ekki til þess að hæstv. ráðherra færi að tilmælum þeim sem koma fram í þingsályktuninni og virti þingmenn viðlits í því að svara einföldum spurningum.

Ég spurði ekki um almenn viðhorf varðandi það hvort gefa ætti að rækjuveiðar frjálsar, hvort afnema ætti aflamarkið. Ég spurði ekki heldur um lögmæti þeirrar ákvörðunar. Ég var einfaldlega að spyrja um áhrifin, hin fjárhagslegu áhrif. Ég spurði hvort hæstv. ráðherra fyndi ekki til neinnar ábyrgðar. Hann segist vera ábyrgðarlaus maður í þeim efnum.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hann þyrfti ekki með einhverjum hætti að koma til móts við starfsemi Byggðastofnunar, hann er greinilega áhyggjulaus hvað það varðar. Þá vitum við það. Hæstv. ráðherra hefur stundum vísað til þess að Byggðastofnun ætti að leysa þetta og Byggðastofnun ætti að leysa hitt. Hæstv. ráðherra hefur stundum haldið innblásnar ræður um byggðamál. Nú sjáum við hins vegar hvernig hæstv. ráðherra bregst við þegar hann er í færum til að láta gott af sér leiða í þessum efnum.