139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

jarðhitaréttindi í ríkiseigu.

[10:56]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Starfandi var nefnd sem skilaði forsætisráðherra tillögum sínum um það hvernig við ættum að taka afgjald af orkuauðlindum sem eru í eigu ríkisins. Nokkur ráðuneyti, þar á meðal iðnaðarráðuneytið, vinna nú úr þessum tillögum og ég á von á því að það komi lagabálkur um það innan tíðar. Menn hafa unnið að þessu máli eins hratt og hægt hefur verið en við þurfum líka að hafa víðtækt samráð í þessu efni. En það er alveg ljóst að lagabálkur mun líta dagsins ljós innan tíðar.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður sagði, eftir að við gerðum þá breytingu á lögum að nú er beinlínis bannað að framselja auðlindir, hvort sem þær eru í eigu sveitarfélaga eða ríkisins, er sveitarfélögum einnig gert að halda auðlindum sínum og þau mega ekki framselja þær nema til annarra opinberra aðila. Þá skiptir máli að við séum í góðu sambandi við sveitarfélögin um það hvernig eigi að taka gjald fyrir nýtingu þessara auðlinda og ekki síst vegna þess að stærstu auðlindirnar sem nýttar verða af orkufyrirtækjunum á næstunni eru í eigu sveitarfélaga. Ég veit að eigendur auðlindanna fyrir norðan, í Þingeyjarsýslum, eru þegar farnir að hreyfa sig og fylgjast með því sem ríkið gerir. En ég tel mjög mikilvægt að sveitarfélögin sjálf taki þetta efni til umræðu sín í milli og marki sér samræmda stefnu í þessum efnum vegna þess að það skiptir verulegu máli. Það snýst líka um samkeppnishæfi Íslands í heild sinni, að þeir sem lána hingað fé o.s.frv. hafi einhverja hugmynd um hvernig umhverfið hér er, að það sé ekki mismunandi milli sveitarfélaga, þannig að nokkurt samræmi sé í þessum efnum.