139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

jarðhitaréttindi í ríkiseigu.

[10:59]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem fram kemur hjá hv. þingmanni, í dag leyfir lagaramminn leigutíma upp á 65 ár og ég held að það sé alveg skýrt að ríkið mun aldrei nokkurn tímann leggja til að hann verði fullnýttur. Það er heldur ekki lagt til í þessari skýrslu. Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn mun aldrei nokkurn tíma leigja frá sér auðlindir í 65 ár eins og gert hefur verið og við höfum dæmi um að sveitarfélög suður með sjó hafi gert.

Ég er jafnframt með það til skoðunar í ráðuneytinu og mun leggja fram frumvarp um það í vetur að stytta hreinlega með lögum heimild sveitarfélaga og heimild eigenda auðlinda til þess að leigja frá sér auðlindir sínar, vegna þess að 65 ár eru of langur tími. Ég tel líka að menn hafi túlkað lögin ansi vítt t.d. þegar gerður var samningur milli Reykjanesbæjar og HS Orku á síðasta ári og ég gerði strax athugasemdir við það með bréfi til beggja aðila í september í fyrra.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, þessir hlutir þurfa skýrast sem allra fyrst. (Forseti hringir.) Unnið er hörðum höndum að því og vonandi kemur frumvarp hér inn fyrir jól um þetta efni.