139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

álver á Bakka.

[11:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að vinna mjög þétt með Landsvirkjun. Landsvirkjun á fulltrúa í þessari norðausturnefnd þannig að það er vel vitað á báða bóga hvað er að gerast hvorum megin og við ætlum okkur klárlega ekki að ganga lengra og gera einhverja aðra samninga en Landsvirkjun getur staðið undir.

Þegar ég tala um stórfellda atvinnuuppbyggingu er ljóst að Landsvirkjun horfir til Þeistareykja og Þingeyjarsýslna sem næsta stóra orkuöflunarsvæðis. Og hún hefur þegar sett vel á annan tug milljarða inn á svæðið í formi fjárfestinga og vill fara að koma þessari orku í vinnu. Það er alveg ljóst að þessi orka verður seld til atvinnuuppbyggingar á næstu missirum. Þess vegna leyfi ég mér að segja að stórfelld atvinnuuppbygging sé handan við hornið í Þingeyjarsýslunum, ekki síst vegna þess að við erum líka að fara af stað með verkefni (Forseti hringir.) til að tryggja samhliða innri vöxt samfélagsins þannig að áfallið verði ekki mikið þegar þessi orka verður komin í sölu og komin í verð. (Forseti hringir.) Framtíðin er björt fyrir norðan og ég leyfi mér að segja það vegna þess að ég veit að við getum staðið undir því.