139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

fundarstjórn.

[11:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það hefur komið fram hjá hv. þingmanni að stundum er það skammtímaminnið sem bregst henni en mér virðist nú sem langtímaminnið sé líka farið að bregðast henni. Ég ætla að rifja það upp fyrir henni að hún lýsti því hér yfir á síðasta þingi að hún hygðist leggja fram þessa tillögu. Ég fagnaði því. Ég taldi að það væri bara rétt að þingið tæki þetta mál til afgreiðslu en hv. þingmaður gleymdi því líka, alveg eins og hún gleymdi því að hún var í nefndinni sem fjallaði um þjóðaratkvæðagreiðslufrumvarpið, (VigH: Þetta er rangt hjá þér.) og gleymdi því líka að hún fjallaði sjálf um þriggja mánaða ákvæðið. Ég vil bara segja það alveg skýrt að ég hefði ekkert á móti því að tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB kæmi hér á dagskrá. Það er ekki meiri hluti fyrir því á þessu þingi, ekki frekar en er með þjóðinni, samanber síðustu skoðanakannanir. Það er algjörlega rangt að framkvæmdarvaldið sé með einhverjum hætti að reyna að ryðja þessu máli í burtu. Hins vegar eru lög og reglur sem gilda og það gildir líka um hv. þingmann, það gildir líka um þau mál (Forseti hringir.) sem hún leggur hér fram. Það ætti hún nú að vita, sérfræðingurinn sjálfur í réttarríkinu. [Hlátur í þingsal.]