139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

fundarstjórn.

[11:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Frú forseti. Það er eins og við manninn mælt að þegar ég tek til máls þá upptendrast hæstv. utanríkisráðherra, fer í ræðustól og gerir a.m.k. tilraun til að hrauna yfir mig en tekst það ekki oft eða nánast aldrei. [Hlátrasköll í þingsal.] Hann lýsti því náttúrlega að Samfylkingin fari eftir skoðanakönnunum og þess vegna eigi þetta mál ekki að fara á dagskrá. Ég bendi á að hér eru á hverjum degi mál afgreidd með afbrigðum. Ég lagði fram samhliða þessu frumvarpi eða daginn eftir frumvarp til laga um breytingar á lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem á að gera það auðvelt og einfalt að koma þessu máli á dagskrá.

Hér er talað um að fólk þurfi að kynna sér hvað felst í ESB-samningnum. Ef til vill erum við ekki að kjósa um ESB-samninginn fái þetta mál brautargengi, við erum fyrst og fremst að kjósa um að rjúfa kyrrstöðuna. Ríkisstjórnin ræður ekki við að hafa báða boltana á lofti, að hjálpa heimilum og koma fyrirtækjum af stað og að halda (Forseti hringir.) þessari umsókn gangandi. Fáum að kjósa um að rjúfa kyrrstöðuna sem þessi ríkisstjórn er búin (Forseti hringir.) að koma okkur í.