139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

fundarstjórn.

[11:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef engan áhuga á því að hrauna yfir einn eða neinn og allra síst Framsóknarflokkinn sem eins og hv. þingmenn vita að mér þykir ósköp vænt um. Ég ætla að gefa hv. þingmanni eitt gott ráð. Það var gerð rannsókn við Nottingham-háskóla í fyrra. Hún leiddi það í ljós að ef menn borða sem svarar til hnefafylli af bláberjum á hverjum degi þá eflist skammtímaminnið.

Mér finnst að hv. þingmaður hafi orðið sér til skammar, ekki þó í þessum sal heldur í útvarpinu í gær þegar hún leyfði sér að saka starfsmenn þingsins um mistök vegna þess að þeir leiðréttu ekki vitleysuna úr henni. Varðandi þriggja mánaða frestinn er rétt að það komi fram að einn af flutningsmönnum þessarar tillögu lagði fram á síðasta sumri tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kemur alveg skýrt fram í greinargerð með því frumvarpi nauðsyn þess að hafa nægilegan frest til að þjóðinni geti tekist að yfirvega mál og þar sem er skýrt tekið fram að það eigi ekki að tengja þjóðaratkvæðagreiðslur (Forseti hringir.) við aðrar kosningar. Svona rekur nú hvað sig (Gripið fram í.) á annars horn hjá þessum hv. flutningsmönnum og sérstaklega (Gripið fram í.) þessum ágæta þingmanni (Forseti hringir.) sem ég ber annars mikla virðingu fyrir og ég reyni ekki að hrauna yfir hana eða (Gripið fram í.) aðra.