139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

fundarstjórn.

[11:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér inn í þá umræðu sem hér er í gangi. Ég fagna því auðvitað að utanríkisráðherra sé ekki mótfallinn því að þetta mál fari á dagskrá og líkt og fyrri þingmaður hvet ég forseta til að taka orð hans alvarlega í þessu efni.

En varðandi þekkingu fólks á ESB-umsókninn, þá hefði hæstv. utanríkisráðherra átt að borða eilítið meira af bláberjum (Gripið fram í.) því að þá mundi utanríkisráðherra vita að hluti af þeirri þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi fól það í sér að þjóðin væri upplýst um hvernig viðræðurnar stæðu og væri vel inni í því hvernig þessi mál standa. Ég held að það sé ekki nokkur von til annars en þjóðin hafi þessa þekkingu vegna þess að það hefur gengið svo vel hjá utanríkismálanefnd og ráðherra sjálfum að upplýsa þjóðina um gang þessara viðræðna.

Varðandi efnisatriði tillögunnar þá getum við tekið það til umræðu á eftir, frú forseti, þegar orðið verður við (Forseti hringir.) beiðni utanríkisráðherra um að taka þetta mál á dagskrá.