139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

fundarstjórn.

[11:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér fer fram á fullan rétt á sér. Það er ekkert óeðlilegt við það að þjóðin sé við þessar erfiðu aðstæður spurð spurninga, og það er ekkert óeðlilegt við það þegar við horfum á nýframkomið fjárlagafrumvarp að spurt sé um forgangsröðun í samfélaginu og þó að það væri ekki nema út frá þeim veigamiklu atriðum sem við tækjum þessi mál til umræðu. Eða væri ekki réttlátt að þjóðin yrði spurð að því hvort hún vilji eyða milljörðum króna á næsta ári í aðildarviðræður við Evrópusambandið, hvort hún vilji eyða kannski 1–2 milljörðum króna í stjórnlagaþing við þessar aðstæður í stað þess að skipa einhverja nefnd sérfræðinga og halda þjóðfund sem kostar minna? Er eitthvað óeðlilegt að þjóðin sé spurð við þessar aðstæður í hvað við viljum eyða peningunum og hvernig við viljum forgangsraða? Viljum við loka spítölum? Viljum við draga úr fjölskyldubótum, stuðningi við veikustu þegnana (Forseti hringir.) í samfélaginu og standa að þessum verkefnum? Ég held að það sé (Forseti hringir.) full ástæða, virðulegi forseti, til að taka þetta til umræðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)