139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

aðstoð við fátæka -- mál á dagskrá.

[11:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér er orðin, m.a. um tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, vil ég taka fram að ég studdi þá ákvörðun Alþingis að fara í viðræður við Evrópusambandið um aðild í þeim tilgangi að fá fram samning sem þjóðin mundi kjósa um. Það er vegna þess að ég vil og ég treysti þjóðinni til að taka ákvörðun um þetta mál þegar allar hliðar þess liggja fyrir á grundvelli samnings.

Ég studdi ekki að aðildarumsókn yrði dregin til baka vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að þeir sem það vilja séu þeir sem vilja ekki leggja málið í dóm kjósenda. Nú er komin tillaga í nýjum búningi sem gengur út á það að fara í sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um að hætta viðræðunum sem eru í gangi. Það má sem sagt ekki leggja málið í endanlegum búningi fyrir þjóðina. Ég er ósammála þessari nálgun. Ég er ósammála því viðhorfi að það sé eitthvert aðlögunarferli í gangi. Ég tel að það séu engin rök og innstæða fyrir þeim fullyrðingum. En að þessu sögðu vil ég svo hvetja til þess að við förum að ræða þau mál sem raunverulega brenna á þjóðinni og hafa verið til umræðu undir þessum lið í dag.