139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[12:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þar til í umræðum í gær hér á Alþingi stóð ég í þeirri meiningu að viðræðunefndin, eða sú sem hv. þm. Jón Gunnarsson kallar sáttanefndina um sjávarútvegsmál, hefði skoðað og bent á tvær leiðir sem fara mætti í fiskveiðistjórnarmálum. Hvorug tillagan væri fullkomin og nú hæfist vinna við gerð lokatillögu í frumvarpsdrögum. Svo kom í ljós að önnur tillagan, hin svokallaða tilboðsleið, var aðeins fylgiplagg sem fæstir eða nokkur í nefndinni vildi nokkuð með hafa. Þetta fundust mér ekki góðar fréttir, virðulegi forseti. Til að segja hlutina eins og þeir eru þá er ég ekki par hrifin af sáttinni sem sögð er felast í samningaleiðinni svokölluðu. Ég veit að þannig háttar um marga aðra. Það skiptir gífurlega miklu máli að í vinnunni sem nú fer af stað verði litið til þeirra sjónarmiða sem fram koma í tilboðsleiðinni svokallaðri. Í lokalausninni verður að vera kristaltært að jafnræðis sé gætt og atvinnufrelsi sé tryggt í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá því í október 2007. Um annað er einfaldlega ekki hægt að semja, virðulegi forseti. Í mínum huga er aðeins einn eigandi og einn rétthafi að fiskinum í sjónum og hann er við, við öll, fólkið í landinu. Ríkisvaldið getur síðan fyrir okkar hönd leyft einhverjum að veiða, það er aðferðin við leyfisveitinguna sem nú þarf að semja frumvarp um. Í þeirri vinnu þarf að taka tillit til þeirra sem hafa stundað veiðarnar undanfarin ár, en þeir eiga ekki að ráða ferðinni